Kaup ríkisins á eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:00:39 (1155)

2000-11-01 19:00:39# 126. lþ. 18.15 fundur 95. mál: #A kaup ríkisins á eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:00]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka fyrir undirtektir hv. þm. við þessa umræðu. Ég harma reyndar að þingmenn úr þessu kjördæmi, úr Framsfl. og Sjálfstfl., skuli ekki vera hér til að taka þátt í einu stærsta máli sem Vestfirðingar standa frammi fyrir þessa dagana.

Hugur Vestfirðinga er ljós. Í skoðanakönnun á vegum blaðsins Bæjarins besta --- þeir höfðu samband við mig núna fyrir skömmu --- höfðu kl. hálfsjö í kvöld alls 351 greitt atkvæði í gegnum tölvu og af þeim eru rúmlega 92% andvíg því að Orkubúið gangi upp í skuldir sveitarfélaganna. Þar er augljós vísbending um hver hugur Vestfirðinga er. En það eru kannski einhverjir aðrir hagsmunir sem liggja að baki hjá ríkisstjórninni sem ásælist þessa eign þeirra. Það er nokkuð líklegt að einka- og hlutafélagavætt Orkubú Vestfjarða verði selt hæstbjóðanda. Það er ekki víst að það muni fyrst og fremst bera hagsmuni Vestfirðinga fyrir brjósti.

Herra forseti. Ég skora á ríkisstjórnina að endurskoða afstöðu sína í þeim kúgunaraðgerðum sem hún ætlar að beita Vestfirðinga. Það á að leysa félagslega íbúðavandann á öðrum vettvangi. Þar bera miklu fleiri aðilar ábyrgðina. Það mál á að leysa á landsvísu og ekki blanda þessu saman. Vestfirðingar eiga að fá að hafa sitt Orkubú, eitt besta fyrirtæki sitt, til sóknar í atvinnu og iðnaði til næstu ára.