Bygging menningarhúsa

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:23:55 (1164)

2000-11-01 19:23:55# 126. lþ. 18.17 fundur 130. mál: #A bygging menningarhúsa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:23]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þessar umræður um menningarhúsin hafa verið mjög fróðlegar og ánægjulegar síðan við kynntum áform okkar í ársbyrjun 1999. Þær hafa m.a. leitt til þess að nú hefur verið unnin skýrsla um menningarmál á landsbyggðinni sem er dreift hér til þingmanna. Þar er greint frá því hvernig menn hafa tekið þessum hugmyndum víðs vegar um landið. Nefnd hefur starfað að málinu og ýmsar hugmyndir vaknað í tilefni af þessari umræðu. Eins og ég sagði alltaf þegar þetta mál var rætt á sl. vetri og ári, raunar frá því að ég hóf að kynna þetta mál, þá beinist það ekki einungis að því að reisa ákveðnar byggingar heldur líka að velta fyrir sér með hvaða ráðum ríkisvaldið gæti eflt menningarstarf á landsbyggðinni. Skýrslan sem dreift er hér í dag sýnir margar góðar hugmyndir sem unnt er að líta til þegar menn velta fyrir sér samstarfi sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins og ríkisstjórnarinnar í menningarmálum.

Á þeim mánuðum sem liðnir eru frá því að hugmyndin var kynnt hefur komið fram að einkum á tveimur stöðum, Akureyri og Vestmannaeyjum, hafa menn hug á því að reisa fjölnota menningarhús. Einnig hafa komið fram hugmyndir um það hvernig að þessu verki skuli staðið á Ísafirði. Þá eru á Austfjörðum, í Fjarðabyggð, hugmyndir um að tengja nýja kirkju á Eskifirði við menningarstarf og raunar var sú kirkja opnuð sem menningar- og kirkjumiðstöð núna í september. Þannig höfum við unnið að þessum verkefnum víða og verið í samstarfi við marga aðila um land allt til að efla þar menningarstarfsemi.

Skýrslan sem hér er dreift er unnin af starfshópi sem í sátu fulltrúar menntmrn., Byggðastofnunar og Sambands ísl. sveitarfélaga. Eins og hv. þingmenn geta kynnt sér þá hefur þar verið unnið gott starf. Þarna eru margar góðar tillögur sem ánægjulegt væri að ræða nánar á Alþingi þegar þingmenn hafa náð að kynna sér þetta góða skjal nánar.

Að því er varðar sérstaklega samstarf ríkisins og Akureyrarbæjar þá er það rétt hjá hv. þm. að Akureyringar voru fljótir til að taka þessa góðu hugmynd sem við hreyfðum á sl. ári. Hún var rædd á síðasta ári og við gerðum við þá samninga í febrúar um menningarsamstarf. Í þeim samningi er sérstaklega tekið fram að meta skuli forsendur fyrir hlutdeild ríkissjóðs í stofnkostnaði og rekstri menningarhúss á Akureyri. Eftir að þessi samningur hafði verið staðfestur af ríkisstjórn og ég hafði fengið það umboð sem hann veitti mér þá tóku þessar viðræður ráðuneytisins og Akureyrarbæjar nýja stefnu. Ég tilnefndi sérstakan fulltrúa minn með þekkingu á byggingarmálum á þessu sviði til viðræðna við Akureyrarbæ og farið var yfir allar þær hugmyndir sem fram höfðu komið, þær metnar og skoðaðar. Síðan var mér afhent ný skýrsla þar sem hugmyndirnar hafa verið endurmetnar og litið nánar á málið. Eins og alltaf er þegar um slíkt er að ræða komu þar fram ákveðin álitamál en þó hefur að mínu mati ekkert komið fram í þessu máli sem ætti að koma í veg fyrir að það fengi framgang. Ég hef raunar skýrt forseta bæjarstjórar Akureyrar frá því og á milli ráðuneytisins og forsvarsmanna Akureyrarbæjar er ekki um neinn ágreining í þessum efnum að ræða. Þetta eru stórar ákvarðanir sem þarf að taka og eðlilegt, eins og reynslan hefur sýnt okkur, að þeim mun betur sem við undirbúum slík mál, þeim mun betur stöndum við að framkvæmdum þegar í þær er ráðist.

Sömu sögu er að segja um Vestmannaeyjar. Þar hafa einnig verið kynnt áform um hvernig að þessari mannvirkjagerð yrði staðið. Það mál er einnig til athugunar á vettvangi menntmrn. og mun jafnframt koma til athugunar hjá ríkisstjórninni.

Mér finnst þetta eðlilegt framvinda á miklum og merkum málum. Menn hafa ekki hvikað heldur halda sínu striki og leggja grunn að því að þegar þeir hafa lokið þeim undirbúningi sem nauðsynlegur er þá verði starfsemin sem að er stefnt í þessum húsum öllum til sóma.