Bygging menningarhúsa

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:29:04 (1165)

2000-11-01 19:29:04# 126. lþ. 18.17 fundur 130. mál: #A bygging menningarhúsa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:29]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér gerðist sá skemmtilegi atburður, einmitt meðan hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að flytja fyrirspurn sína, að hér var dreift merku gagni, Skýrslu samstarfshóps um menningarmál á landsbyggðinni. Við í leikhúsinu köllum þetta pottþétta ,,tæmingu`` og þetta sýnir að hæstv. menntmrh. hefur tilfinningu fyrir því að gera hlutina á réttum tíma.

Það er afar gott að hafa fengið þetta plagg í hendurnar og ég er sannfærð um að það á eftir að nýtast þingmönnum og öðrum sem láta sig menningarmál á landsbyggðinni varða, þegar við förum að vinna frekari tillögur að úrbótum í þeim efnum.

Mig langaði jafnframt að hér kæmi fram, varðandi Ísafjörð, að þar eru magnaðar hugmyndir í gangi hjá bæjaryfirvöldum um að ákveðin hús njóti þess að verða kölluð menningarhús í þeim bæ. Þar er talað um gamla sjúkrahúsið, um ákveðinn hluta af Tónlistarskóla Ísafjarðar, Edinborgarhúsið sem er virðulegt gamalt hús í hjarta bæjarins, og gamla apótekið. Auk þess vilja yfirvöld Ísafjarðarbæjar að tekið verði á í viðhaldi félagsheimila í byggðarkjörnum og nálægum bæjum.