Bygging menningarhúsa

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:39:45 (1173)

2000-11-01 19:39:45# 126. lþ. 18.17 fundur 130. mál: #A bygging menningarhúsa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:39]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurningin var tvíþætt og ég svaraði báðum þáttum. Ég svaraði fyrri þættinum m.a. með því að leggja fram þessa skýrslu og gott að hún kom í tæka tíð fyrir þessa umræðu. Varðandi seinna atriðið í fyrirspurninni þá er það rangt hjá hv. þm. að ríkisstjórnin hafi fengið tillögur til að taka afstöðu til fyrir einu ári. Það var ekki fyrr en í febrúar sem ég fékk umboð frá ríkisstjórninni til þess að taka upp viðræður við Akureyrarbæ og þá setti ég sérstakan fulltrúa í að fara yfir þær hugmyndir sem lágu fyrir og þær voru endurskoðaðar. Ég held að málið hafi tekið töluverðum breytingum á því stigi sem það hefur verið á þessu ári og eins og alltaf er þegar slík stórmál eru á ferðinni þá er um að gera að fara ofan í hvern einstakan þátt og skoða þau atriði og taka síðan afstöðu til þeirra. Þarna er ekki aðeins um það að ræða að reisa hús sem ríkinu kemur við því það er verið að tala um hótel og það er verið að tala um alls kyns starfsemi sem tengist Akureyrarbæ þannig að það þarf líka að semja um hvað í þessu húsi er eðlilegt að kosta undir þeim formerkjum sem við erum hér að ræða málin og hvað Akureyrarbær ætlar að taka afstöðu til og standa undir á eigin fótum. Þetta eru allt atriði sem við höfum skoðað og það er enginn bilbugur á mér í því að leiða þetta mál til lykta. Hvort það gerist vikunni fyrr eða síðar ætla ég ekki að fullyrða neitt um en við stefnum að sjálfsögðu að því að leiða þetta mál til lykta eins og við stefnum að því að leiða önnur mál til lykta, gagnvart Vestmannaeyjum og Ísafirði. Við þurfum að raða þessu upp á ákveðinn hátt. En umræðan hefur skilað mjög góðum árangri, jafnvel betri árangri en ég gat búist við þegar við fórum af stað í janúar 1999.