Konur í ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:47:01 (1177)

2000-11-01 19:47:01# 126. lþ. 18.18 fundur 96. mál: #A konur í ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:47]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Herra forseti. Svör hæstv. samgrh. valda mér nokkrum vonbrigðum. Ég hefði kannski getað sýnt því skilning ef þessi vinna væri skammt á veg komin. Lík svör hafa borist frá öðrum hæstv. ráðherrum við öðrum fyrirspurnum um jafnréttisáætlunina. En það að ekkert hafi verið gert og það eigi ekki að kanna þetta finnst mér illskiljanlegt því fyrir liggur í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar að þetta mat þurfi að fara fram eða það eigi að fara fram, og í hana vitnaði ég í fyrirspurn minni.

Það er alveg rétt sem hæstv. samgrh. segir að þessar upplýsingar eru meira og minna ekki fyrirliggjandi. Hins vegar veit ég ekki annað en að frá því hafi verið gengið að kyngreina eigi alla tölfræði sem notuð er í opinberum plöggum hér á landi, hvort heldur það er unnið af Hagstofunni eða Þjóðhagsstofnun eða öðrum. Það hlýtur því að vera hægt að kippa því í liðinn hvað ferðaþjónustuna varðar, alla vega þannig að ljóst sé hvar konurnar eru og hvar karlarnir eru.

Ég vil taka undir með hv. þm. Drífu Hjartardóttur að auðvitað er ferðaþjónustan ekki síst atvinnutækifæri fyrir konur á landsbyggðinni. Í því ljósi teldi ég mjög brýnt að hæstv. samgrh. beitti sér fyrir því að framlag kvenna til ferðaþjónustu verði metið og það kannað þá sérstaklega hvaða stuðningsaðgerðir gagnist konum, eins og segir í þingsályktun Alþingis.