Fjöldi skipstjórnarmanna og vélstjóra á fiskiskipum og kaupskipum

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:59:39 (1182)

2000-11-01 19:59:39# 126. lþ. 18.19 fundur 110. mál: #A fjöldi skipstjórnarmanna og vélstjóra á fiskiskipum og kaupskipum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:59]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans og jafnframt hv. þm. Drífu Hjartardóttur fyrir innlegg hennar í umræðuna sem er alveg full þörf á. Ég veit t.d. að Eimskipafélag Íslands hefur beitt sér fyrir því að reyna að laða konur til starfa á sjó.

[20:00]

Hins vegar setur að manni hroll við að heyra að það vanti á bilinu 90--110 manns, bæði skipstjórnarmenn og vélstjóra, til að manna fiski- og kaupskipaflota Íslendinga. Það skýrir í sjálfu sér hvernig stendur á þeim miklu undanþáguveitingum sem hér hafa viðgengist. Maður hlýtur að spyrja sig: Er eðlilegt að veita allar þessar undanþágur? Það mætti líkja þessu við að ef það vantaði vörubílstjóra þá þyrftu þeir ekki að taka próf heldur gætu hoppað upp í flutningabíla eða fólksflutningabíla, ekkert mál með undanþágur.

Þetta getur náttúrlega ekki gengið svona lengur, hæstv. samgrh. Hér er verk fyrir höndum sem bráðan bug þarf að vinda að. Jafnframt þurfa stjórnvöld, hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, þ.e. útgerðin, fiskvinnslan, sölusamtökin og stéttarsamtök sjómanna að snúa sér að því að bæta ímynd sjómannsstarfsins í nútímaþjóðfélagi.

Ég treysti því hæstv. samgrh. að ráðuneytið beiti sér fyrir því að kalla þessa hagsmunaaðila saman til að gera útrás og kynna starfið frekar fyrir ungu fólki og laða ungt fólk til sjómannsstarfa. Annars fer illa fyrir þjóð sem byggir meginafkomu sína á siglingum, sjávarútvegi og fiskvinnslu.