Flutningur Landskrár fasteigna til Akureyrar

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 20:02:07 (1183)

2000-11-01 20:02:07# 126. lþ. 18.20 fundur 131. mál: #A flutningur Landskrár fasteigna til Akureyrar# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[20:02]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Þegar lögum um skráningu og mat fasteigna var breytt á síðasta þingi fólst í þeirri lagabreytingu m.a. endurskipulagning á öllu sem varðaði gagnahald og skráningu fasteigna í landinu. Til á að verða svonefnd Landskrá fasteigna þar sem haldið er utan um allan þennan mikla upplýsingaforða á einum stað. Í tengslum við frv. þegar það kom hér fram á Alþingi var kynnt, bæði í grg. frv. og rækilega í ræðum hæstv. ráðherra, að þannig yrði að þessu staðið að svonefnd Landskrá fasteigna yrði staðsett á Akureyri og umdæmisskrifstofu Fasteignamats ríkisins þar yrði falið þetta verkefni.

Þannig segir t.d. í grg. með frv., með leyfi herra forseta:

,,Efla þarf tölvudeild Fasteignamats ríkisins til að halda Landskrá fasteigna. Ætlunin er að þessi starfsemi verði á umdæmisskrifstofu Fasteignamats ríkisins á Akureyri. Um er að ræða 10--12 störf sem hafa það verkefni að reka tölvukerfi sem heldur Landskrá fasteigna, þjónusta notendur skrárinnar og annast almenna þjónustu Fasteignamats ríkisins á Norðurlandi en þar starfa nú fimm menn. Grundvöllur þess að Landskrá fasteigna sé haldin á Akureyri er að gagnaflutningur til og frá umdæmisskrifstofunni sé hraðvirkur og öruggur.``

Þetta ítrekaði hæstv. ráðherra rækilega í ræðum sínum í umræðum um þessi mál. Hann taldi það breytingunni sérstaklega til tekna að með því næðist í leiðinni áfangi í að færa verkefni og störf út á landsbyggðina. Það hentar vel þegar í hlut á ný þjónusta eða starfsemi af þessu tagi. Ég held að flestir séu sammála um að þá sé upplagt að nota tækifærið. Ekki vantar tekjurnar til að standa undir verkefninu því sérstakur tekjustofn kom til sögunnar, umsýslugjald, og það ríflegt að flestra mati.

Nú er það svo að hæstv. ráðherra vill vera maður orða sinna og hef ég enga trú á öðru en hugur hæstv. ráðherra standi til að efna þetta að fullu og öllu. Því miður bólar þó ekkert á þessum nýju störfum á Akureyri. Það virðist allt vera á sömu bókina lært, þegar gera á eitthvað af þessu tagi þá lætur það mjög á sér standa.

Nú eiga lögin að taka gildi um áramótin og þar af leiðandi væri eðlilegt að allt væri á fullri ferð á umdæmisskrifstofu Fasteignamats ríkisins á Akureyri við að taka á móti öllum þessum nýju störfum og búa í haginn þannig að þetta gæti farið af stað um áramótin.

Ég ákvað því að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvar eru þessi áform á vegi stödd? Ég trúi ekki þeim orðrómi sem ég hef heyrt, að í staðinn fyrir að byggja upp þessa starfsemi norður á Akureyri sé nú tekið að fjölga mannskap hér á höfuðbólinu, öfugt við það sem ætlunin var.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Hverju sætir að tekjustofninn sem þarna var eyrnamerktur skuli ekki tekinn í þetta verkefni? Ætlunin mun vera samkvæmt fjárlagafrv. að hluti hans renni í ríkissjóð á næsta ári.