Flutningur Landskrár fasteigna til Akureyrar

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 20:10:37 (1186)

2000-11-01 20:10:37# 126. lþ. 18.20 fundur 131. mál: #A flutningur Landskrár fasteigna til Akureyrar# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[20:10]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Út af fyrir sig er ég ánægður með inntak þeirra, nema að einu leyti. Það er þetta með tímann. Ég sætti mig æ verr við það hvað þetta er alltaf óskaplega erfitt, seinvirkt og tekur mikinn tíma þegar eitthvað á að gerast í þessum efnum. Ég hlýt að spyrja: Geta menn ekki brett upp ermarnar í tilvikum sem þessum? Eru menn að vinna að þessu alls staðar í kerfinu með tóma belgvettlinga á höndunum? Hvernig stendur á því að það er allt svona óskaplega þungt og svifaseint þegar eitthvað á að gerast í þessa veru?

Nú er málið tiltölulega einfalt í þessu tilviki. Um næstu áramót ganga í gildi lög og þá hefði verið, samanber það að Alþingi hefur þegar heimilað þessa stefnumótun, alveg kjörið að hin nýja landskrá tæki til starfa á Akureyri eins og þingið er búið að lýsa blessun sinni yfir. Í grg. frv. sem var samþykkt er sú lögskýring fyrir hendi að stefnt sé að þessari starfsemi á umdæmisskrifstofu Fasteignamatsins á Akureyri. Þá þarf ekkert útboðsrugl, þá liggur það fyrir að ríkið má staðsetja þennan hluta starfsemi sinnar á Akureyri ef því sýnist svo og enginn getur kvartað yfir neinu. Hér hefði átt að vera hægt að ganga í verkin.

Ég sætti mig illa við það, herra forseti, að í hverju málinu á fætur öðru fáum við þetta upp. Við vorum að ræða menningarhúsin hér áðan, þar tekur óratíma að danglast áfram í viðræðum um mál sem menn lögðu til fyrir næstum ári síðan. Við vitum hvernig þetta hefur gengið með hvert slíkt viðfangsefnið á fætur öðru. Fjarvinnslustörf til Ólafsfjarðar og annað í þeim dúr, þar gerist eiginlega ekki neitt. Menn hafa það jafnvel á tilfinningunni ef eitthvað er að heldur sé að síga á ógæfuhliðina því störfunum sé hægt og hljótt séu að fjölga þar sem alls ekki var ætlunin.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka nú á sig rögg og ganga vasklega í að drífa þetta áfram þannig að þetta taki til starfa, a.m.k. formleg starfsemi skrárinnar á Akureyri hefjist um áramótin, eða í öllu falli að allur undirbúningur fyrir það verði unninn þar.