Laxeldi í Mjóafirði

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 10:43:07 (1190)

2000-11-02 10:43:07# 126. lþ. 19.91 fundur 85#B Laxeldi í Mjóafirði# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[10:43]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er skoðun mín að fiskirækt verði mjög mikilvæg atvinnugrein í framtíðinni. Íslendingar þurfa ekki bara að slást í hóp með þeim sem eru í fiskeldi. Þeir þurfa að vera þar í fremstu röð og við eigum afar mikilvægan vísi að framtíðareldi á lúðu. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr gætu hugmyndir manna um eldi á þorski neytt okkur til athafna í framtíðinni. Þar þurfa menn að vera vel á verði og hefja nú þegar rannsóknir á þeim möguleikum. Ýmsum nágrannaþjóðum okkar hefur gengið vel í laxeldi og ég fagna hugmyndum manna um að koma upp slíkri starfsemi.

En við höfum eitthvað að læra af fyrri mistökum --- eða hvað? Ég efast um að við höfum gert það. Ég efast um það vegna þess að við erum að ræða úrskurð hæstv. umhvrh. þess efnis að 8 þúsund tonna kvíaeldi í Mjóafirði eigi ekki að fara í umhverfismat. Enginn efi er á því að niðurstaða ráðherrans er lögleg og hann hefur þetta úrskurðarvald og mikilvægir umsagnaraðilar hins opinbera kerfis eru honum sammála. Það hlýtur að mega draga þá ályktun af þessari stöðu að verkefnið hefði fengið jákvæða niðurstöðu í umhverfismati.

En er þessi niðurstaða þá skynsamleg? Þó hún geti sparað 3--6 mánuði í tíma og einhverja peninga, þá tel ég það ekki vera. Er hún heppileg fyrir nýja og öfluga atvinnugrein vonandi inn í framtíðina? Ég segi nei. Þetta fyrirtæki sem hefði getað fengið einhvers konar framkvæmdarleyfi að loknu umhverfismati verður hvort sem er að búa við óvissu, hve umfangsmikið framkvæmdarleyfi það fær að loknu því ferli sem nú fer í gang. Þessi atvinnugrein, sem kemst vonandi hér á fót, þarf á því að halda að vera í sátt við umhverfið. Fiskeldi á Íslandi verður að vera í fremstu röð. Annars spillir það orðspori Íslands sem landi hreinnar náttúru og þar með íslenskra fiskafurða og ferðaþjónustu. Samfylkingin hefur mótað þá stefnu að umhverfismat eigi að vera aðalreglan.