Laxeldi í Mjóafirði

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 10:45:27 (1191)

2000-11-02 10:45:27# 126. lþ. 19.91 fundur 85#B Laxeldi í Mjóafirði# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[10:45]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Þau gleðilegu tíðindi hafa nú gerst að endurvakin hefur verið trú á fiskeldi við Ísland. Hér er ekki um nýja atvinnugrein að ræða eins og málshefjandi fullyrti. Við höfum reynslu og þekkingu sem við eigum að nýta okkur en við verðum líka að horfa til framtíðarinnar. Öflugir fjárfestar og atvinnurekendur hafa óskað eftir því að fá leyfi til að hefja fiskeldi við Austurland. Í allri þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um atvinnulíf á Austurlandi hljótum við að fagna því að komin eru ný tækifæri til að byggja þar upp atvinnulíf.

Við erum í raun að tala um hundruð starfa sem skipta mjög miklu máli í fjórðungnum. Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein hjá nágrönnum okkar í Skotlandi, Færeyjum og Noregi og þar hefur byggst upp þekking og reynsla sem við hljótum að geta nýtt og eigum að nýta okkur. Reglugerðaverk sem þar hefur verið byggt upp á að nýtast okkur og embættismönnum okkar.

Það er augljóst mál að á Austurlandi eru heppilegar umhverfislegar aðstæður og um það eru menn sammála. Það er vissulega satt að Austurland er fallegt eins og kom fram hjá málshefjanda en það vegur ekki mjög þungt í buddu Austfirðinga. Það er afskaplega mikilvægt að embættismannakerfið hér á landi geti tekið ákvarðanir hratt í þessu máli þannig að þeir fjárfestar sem ætla sér út í þessa atvinnugrein hér á landi þurfi ekki að bíða endalaust eftir því að menn, sem valdir eru til þeirra starfa, og hafa til þess lagastoðir, geti tekið ákvarðanir. Það er ekki líðandi á Íslandi nútímans.