Laxeldi í Mjóafirði

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 10:47:48 (1192)

2000-11-02 10:47:48# 126. lþ. 19.91 fundur 85#B Laxeldi í Mjóafirði# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[10:47]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ekki fer milli mála að hin gamla karakúl-hreyfing lætur nú á sér kræla á nýjan leik. Fyrir þá sem átta sig ekki á hvað þar er á ferðinni skal rifjað upp að það var hún sem fékk því ráðið að merino-hrútarnir spænsku voru fluttir til landsins með mæðiveikinni sem voru einhverjar þyngstu búsifjar sem ein atvinnugrein hefur orðið fyrir. Sama hreyfing fékk því ráðið að minkurinn var fluttur til landsins og varla hefur íslenskt dýralíf borið skarðari hlut frá borði eða orðið fyrir meiri búsifjum. En Íslendingurinn ætlar seint að læra af reynslunni. Nýverið henti það að hæstv. landbrh. Framsfl. hélt flórræðu fyrir austan fjall þar sem hann tilkynnti að hann hefði gefið leyfi til að tilraun yrði til þess gerð að útrýma enn einum stofni lífvera í heiminum, íslensku kúnni. Allir hafa sér til ágætis nokkuð og hann verður a.m.k. af því frægur að hafa orðið fyrstur til að kyssa kú Júdasarkossi.

Ég hef ekki nægilega þekkingu á laxeldi til að kveða upp einhverja dóma um það en ýmis spor úr Noregi hræða vissulega. En betur færi að við gætum náð tökum á þessari mikilvægu atvinnugrein. Ég veit hins vegar að Atlantshafslaxinn kynni að vera í hættu og við megum engu til hætta. Þess vegna er það, kæra frú hæstv. umhvrh., að þótt ekki sé skylt að setja þetta í áhættumat eða umhverfismat megum við og hæstv. ráðherra engu til hætta í þessu skyni.