Laxeldi í Mjóafirði

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 10:49:51 (1193)

2000-11-02 10:49:51# 126. lþ. 19.91 fundur 85#B Laxeldi í Mjóafirði# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[10:49]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ekki matsskylt heldur tilkynningarskylt segir hæstv. umhvrh. Þetta er ekki rétt. Þauleldi á fiski þarf samkvæmt lögum að meta í hverju einstöku tilfelli hvort setja skuli í mat á umhverfisáhrifum. Náttúruvernd ríkisins telur að framkvæma eigi mat, Veiðimálastofnun líka og sú stofnun hefur reyndar ítrekað varað við hættunni sem villtum laxastofnum getur stafað af fiskeldi. Veiðimálastjóri biður um að framkvæmt sé það sem hann kýs að kalla heildstætt mat á fiskeldi í sjó og hæstv. umhvrh. kýs að snúa út úr fyrir veiðimálastjóra og bera það fyrir sig að lögin um mat á umhverfisáhrifum geri ekki ráð fyrir neinu sem kallast gæti heildstætt mat.

Herra forseti. Ekki þarf mikinn vilja til að sjá að það sem veiðimálastjóri óskar eftir í umsögn sinni er stefnumarkandi áætlun um sjókvíaeldi og hann telur greinilega út frá faglegum forsendum að slík stefnumarkandi áætlun eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum. Hugtakið stefnumarkandi áætlun, herra forseti, er hæstv. umhvrh. ekki framandi því að væntanleg er tilskipun frá Evrópusambandinu um umhverfismat slíkra áætlana. Hún veit fullvel að lögfesta þarf mat á umhverfisáhrifum af stefnumarkandi áætlunum á næstu árum á landi okkar, þar með taldar skipulagsáætlanir, vegáætlanir, hafnaáætlanir og áætlanir um stórfellt þauleldi á fiski í kvíum í sjó.

Þegar Norðmenn fóru út í stórfellt kvíaeldi fyrir 20 árum höfðu þeir unnið heimavinnu sína. Þeir höfðu gert slíka áætlun. Skipulagsstofnun og umhvrh. ætla hins vegar að láta eina einstaka framkvæmd gefa fordæmi og marka stefnu í þessum málum án þess að horft sé á málin í víðara samhengi því að auðvitað er úrskurðurinn í Mjóafirði fordæmisgefandi. Ég segi, herra forseti, að bæði Skipulagsstofnun og hæstv. umhvrh. gera sig sek um skammsýni og vangá í úrskurðum sínum því að í úrskurðum beggja er flúið í leyfisveitingaferlið í stað þess að nýta sér þau ákvæði sem eru í lögunum um mat á umhverfisáhrifum sem gera ætti undir eðlilegum kringumstæðum. Þau lög eru til þess ætluð að taka af allan vafa því ríki vafi á náttúran, herra forseti, að fá að njóta hans.