Laxeldi í Mjóafirði

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 10:58:53 (1197)

2000-11-02 10:58:53# 126. lþ. 19.91 fundur 85#B Laxeldi í Mjóafirði# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[10:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er skammt stórra högga á milli hjá hæstv. ríkisstjórn í umhverfismálum þessa dagana. Það má vera okkur mikið umhugsunarefni að í ekki eitt einasta skipti fellur úrskurður náttúrunni, innlendum tegundum eða hinu villta lífríki í hag. Það er sama hvort í hlut á íslenska kýrin, laxinn eða náttúra Mývatns. Úrskurðirnir eru allir á einn veg. Eins og stundum áður hjá íslenskum stjórnvöldum er byrjað á öfugum enda. Við höfum ekki unnið heimavinnuna okkar í þessu máli. Það vantar grundvallarforsendur til að taka jafnafdrifaríka ákvörðun og þá að hefja kvíaeldi í sjó í stórum stíl á erlendum laxastofni. Það vantar úttekt á reynslu erlendis frá, það vantar grundvallarrannsóknir innan lands, eða a.m.k. samantekt á öllu sem fyrir liggur, það vantar stefnumótun, hún er ekki til í málinu eins og hefur glöggt komið fram í máli hæstv. ráðherra og það vantar allt lagaumhverfi. Engin löggjöf er til um þessa starfsemi. Við slíkar aðstæður, herra forseti, er með ólíkindum að það skuli geta orðið niðurstaða að ekki þurfi einu sinni umhverfismat þegar fyrsta umsóknin berst um laxeldi í sjó í stórum stíl á erlendum stofni.

Hér eru miklir hagsmunir í húfi, herra forseti, vissulega á báða bóga, það skal viðurkennt. En við slíkar aðstæður ber stjórnvöldum skylda til að vanda vinnubrögð og viðhafa eðlilega varúð í samskiptum við náttúruna. Það hafa íslensk stjórnvöld undirgengist og þjóðréttarlega skuldbundið sig til þess að gera, m.a. með samþykkt sinni á svonefndum Ríó-sáttmála. Hvorugt hefur verið gert í þessu tilviki, herra forseti, að vanda vinnubrögðin eða viðhafa eðlileg varúðarsjónarmið.