Laxeldi í Mjóafirði

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 11:01:10 (1198)

2000-11-02 11:01:10# 126. lþ. 19.91 fundur 85#B Laxeldi í Mjóafirði# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[11:01]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Áhugi manna á kvíaeldi í sjó hefur aukist á ný enda hefur þessi atvinnuvegur verið rekinn um árabil í nágrannalöndum okkar með góðum árangri. Tækniþróun hefur orðið gífurlega mikil í þessari atvinnugrein og sjónir fjárfesta hafa beinst að Austurlandi varðandi uppbyggingu og er þá sérstaklega horft til Mjóafjarðar og Berufjarðar.

Það hefur komið fram í umræðunni að við þessa ákvörðun umhvrh. hefur verið farið að lögum og staðfestir úrskurðir skipulagsstjóra og Hollustuverndar ríkisins. Hins vegar er ég ekki að segja með því að ekki eigi að fara varlega í þessu efnum og það eigi ekki að gaumgæfa starfsleyfi og skilyrði fyrir því þegar þar að kemur. En hér hefur verið farið að lögum í einu og öllu.

Ég bendi á að sjókvíaeldi er ekki nýtt af nálinni hér og það er ekki nýtt af nálinni í nágrannalöndunum. Það er t.d. stutt til Færeyja frá Austurlandi og hvernig á að koma í veg fyrir að lax sem sleppur þaðan berist hingað? Auðvitað er hætta fyrir hendi og þess vegna spyr maður: Eigum við að sitja hjá í þessari uppbyggingu þegar nágrannaþjóðirnar eru í fullum krafti í uppbyggingunni hjá sér?