Framlagning stjórnarfrumvarpa

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 11:13:06 (1205)

2000-11-02 11:13:06# 126. lþ. 19.94 fundur 88#B framlagning stjórnarfrumvarpa# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[11:13]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Sem betur fer flytja nokkrir stjórnarþingmanna enn þá þingmál og sérstaklega hefur Pétur H. Blöndal verið bæði duglegur við það og að sitja umræður í þessum sal og ég hrósa honum fyrir það. Ég hef ekki sagt að stjórnarandstaðan eigi öll málin, tæplega 180, heldur að hún haldi uppi þinghaldinu vegna þess að stjórnarandstaðan á langflest málin og hefur verið langduglegust og ötulust í þinghaldinu fram að þessu.

Herra forseti nefndi að ekki væri nauðsyn að afgreiða öll 182 frumvörp ríkisstjórnarinnar fyrir jól. Guði sé lof fyrir þau viðbrögð, en ég ætla að leyfa mér að halda því fram að það er fullkominn valdhroki ef það á að vera þannig að við fáum málin, eins og ég sagði áðan, í einni hrúgu laust fyrir jól. Þess vegna hvet ég forseta eindregið til að ræða þessi mál við ríkisstjórnina og ég mun svo sannarlega minna á viðbrögðin dagana fyrir jól þegar gerð verður krafa um að við viðhöldum úreltum vinnubrögðum og sitjum fram á nætur til að afgreiða mál af því að það á að ryðja þeim í gegnum þingið, inn og út, á örfáum dögum fyrir jól.