Skráning skipa

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 11:27:54 (1209)

2000-11-02 11:27:54# 126. lþ. 19.1 fundur 118. mál: #A skráning skipa# (kaupskip) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[11:27]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Nokkur orð um þetta mál. Ég held að almennt megi segja að það sé til bóta. Það er til þess fallið að rýmka möguleika fyrirtækja og einstaklinga að skrá skip hér á landi. Ekki veitir af því í ljósi þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað undanfarin ár. En það er þó ein spurning, virðulegi forseti, sem ég vildi beina til hæstv. samgrh. vegna þess sem segir í greinargerð með frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í lögskýringargögnum verður hins vegar ekki á nokkurn hátt séð að það hafi verið vilji löggjafans eða að þar væri greint á nokkurn hátt frá því hver tilgangur þess væri. Því verður að ætla að mistök hafi orðið við framlagningu frumvarps sem varð að lögum nr. 23/1991 ...``

Hér er verið að fjalla um að fellt var úr lögum ákvæði um nokkurs konar þurrleiguskráningu og ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, að ef þetta er rétt sem fram kemur í athugasemdum við lagafrv. þetta frá samgrh., þá liggur líka fyrir að þessi mistök hafa væntanlega legið óbætt hjá garði í ráðuneytinu í níu ár. Á þeim tíma hefur þróunin orðið sú sem menn hafa lýst hér í ræðu, þ.e. að skipum hefur fækkað niður í þá tölu sem nú er.

Ég spyr, virðulegi forseti, hæstv. samgrh., því ef þetta er rétt hjá ráðherranum þá hlýtur maður að spyrja: Hvað veldur því að nú fyrst er gripið til aðgerða þrátt fyrir að allir kunni og þekki þá þróun sem hefur átt sér stað í skráningu á kaupskipaflotanum hér á landi?