Skráning skipa

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 11:39:27 (1211)

2000-11-02 11:39:27# 126. lþ. 19.1 fundur 118. mál: #A skráning skipa# (kaupskip) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[11:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Til að fyrirbyggja allan misskilning, þá var ég eingöngu að lesa upp þetta ákvæði úr tillögunni frá 1993 sem flutt var og átti við þær aðstæður sem þá voru uppi í þessum efnum. Það er ekki af hálfu ræðumanns á nokkurn hátt verið að leggja slíkt til í dag. Þetta ákvæði var hugsað vegna þess sérkennilega ástands sem ríkti á árunum milli 1987 og 1998, að fiskiskip sem misst höfðu kvóta sinn og veiðileyfi í íslenskri lögsögu máttu ekki haldast á íslenskri skipaskrá. Forsenda þess að annað skip fengi að koma í þeirra stað var að skipin væru afmáð af íslensku skipaskránni og það var á grundvelli reglugerðarákvæðis en ekki heimildar í lögum. Þetta leiddi til þess að skip, algerlega íslensk skip, í íslenskri eigu og með íslenskri áhöfn sem höfðu ekki veiðiheimildir í íslensku lögsögunni en voru gerð út af íslenskum aðilum frá Íslandi urðu að fara á erlendan fána og menn muna sjálfsagt eftir dæmunum þar um. Þetta leiddi þá aftur til þess að veiðireynsla þessara skipa taldist ekki íslensk heldur tilheyrði hún einhverjum ríkjum í Karíbahafi eða guð má vita hvar. Þetta ástand varði tímabundið á meðan þágildandi úreldingarreglur voru í gildi og þessi ákvæði um að afmá þyrfti skipin af íslensku skipaskránni voru látin standa. Nú er þetta liðin tíð, bæði vegna þess að búið er að fella niður nefndar úreldingarreglur og nú geta íslensk skip verið á íslenskri skrá og íslenskum fána og haft veiðileyfi í íslenskri sérefnahagslögsögu burt séð frá því hvort þau hafa veiðiheimildir, þannig að málið er úr sögunni sem slíkt. Reyndar var þessi skráning heimiluð síðar nokkrum árum eftir að þetta var og nokkur íslensk skip sem höfðu áður þurft að vera á erlendum fána af þessum ástæðum komu inn í landhelgina eins og skip sem m.a. aðilar á Siglufirði gerðu út. Þetta mál, til að fyrirbyggja allan misskilning, snýr alfarið að liðinni tíð.