Varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 11:49:46 (1214)

2000-11-02 11:49:46# 126. lþ. 19.2 fundur 47. mál: #A varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum# þál., PBj
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[11:49]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. sem lögð var fram af hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta kanna hagkvæmni þess að gera jarðgöng úr botni Ísafjarðar, innst í Ísafjarðardjúpi, undir Kollafjarðarheiði. Að sunnanverðu, á Barðaströnd, yrðu þau tveggja arma og kæmu annars vegar út í Skálmardal, sem gengur inn úr Skálmarfirði, og hins vegar í Fjarðarhornsdal, innst í Kollafirði. Einnig verði könnuð hagkvæmni þess að gera jarðgöng undir Eyrarfjall, sem gengju úr Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi yfir í Ísafjarðarbotn, og að þvera Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð á Barðaströnd.``

Ljóst er að samgöngur á Vestfjörðum standa mjög í vegi fyrir frekari framþróun á svæðinu og tengslum manna innan þess. Á það sérstaklega við á vetrum þegar vegir eru iðulega ófærir eða illfærir um langan tíma vegna snjóþyngsla og óveðra. Flutningsmaður þessarar tillögu telur að gerð jarðganga sé í raun eina leiðin til að tryggja vetrarsamgöngur til og frá Vestfjörðum og innan svæðisins. Í tillögunni er gengið út frá því að vegur verði lagður um Arnkötludal milli Strandasýslu og Reykhólasveitar og tekinn í notkun hvort sem unnið verður eftir hugmyndum tillögunnar eða núgildandi vegáætlun.

Lagt er til að borin verði saman hagkvæmni þess að bæta samgöngur innan svæðisins með framkvæmd þessarar tillögu annars vegar og með því að fylgja núverandi vegáætlun hins vegar, en þar er ekki gert ráð fyrir jarðgöngum á þessum slóðum. Þá verði borin saman hagkvæmni styttingar vegalengdar og aukins öryggis á leiðunum milli Patreksfjarðar og Gilsfjarðar og Ísafjarðarbæjar og Gilsfjarðar, verði hugmyndir þessarar tillögu að veruleika, og hagkvæmni sem næst á sömu leiðum verði núgildandi vegáætlun fylgt. Einnig verði kostir og gallar núgildandi vegáætlunar næstu 10--15 árin bornir saman við kostnað við þessa hugmynd sem kæmi á heilsársvegasambandi milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða og við þjóðveg 1 og suðvesturhorn landsins.

Flutningsmaður er eindregið þeirrar skoðunar að jarðgöng sem stytta vegalengdir milli staða og leysa okkur undan snjómokstri á erfiðum fjallvegum sé sú lausn sem stefna beri að þegar leita skal leiða sem talist geta varanlegar samgöngubætur. Þetta á auðvitað best við á snjóþyngstu fjallvegum landsins, t.d. á Vestfjörðum. Það hefur einnig sýnt sig að þverun fjarða bæði styttir vegalengdir og færir vegastæði af snjóþungum hættusvæðum. Þverun Þorskafjarðar, Djúpafjarðar og Gufufjarðar á Barðaströnd yrði sams konar samgöngubót og þverun Gilsfjarðar og Dýrafjarðar.

Með varanlegum samgöngubótum eins og hér er lýst má reikna með að gríðarstórum áfanga megi ná í samgöngumálum. Með þessum breytingum væri ekki lengur yfir neina fjallvegi að fara, utan Kleifaheiðar og Hálfdáns, sem talist geta farartálmi að vetri til.

Herra forseti. Sá sem hér stendur hefur lengi verið þeirrar skoðunar að stefna beri að þverun fjarða og gerð jarðganga undir fjallgarða í mun meira mæli en gert hefur verið fram að þessu. Reynslan af jarðgöngum undir Breiðadalsheiði hefur verið mjög góð og umferð um þau mun meiri en gert var ráð fyrir, þrátt fyrir að íbúum hafi fækkað á svæðinu. Það hefur ekki gerst vegna tilkomu jarðganganna heldur þrátt fyrir þau og af öðrum ástæðum sem er ekki hægt að rekja í þessari ræðu. Með jarðgöngum er hægt að stækka atvinnu- og þjónustusvæði eins og reynslan hefur sýnt og þar með renna sterkari stoðum undir búsetuna.

Ég flutti tillögu hliðstæða þeirri sem hér er mælt fyrir á tveimur þingum, um könnun á því hvort hagkvæmt sé að gera jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Sú tillaga varð ekki útrædd. Nú kann einhver að spyrja hvort þessar tvær leiðir séu ekki andstæðar tillögur. Vissulegea kann menn að greina á um hvaða leiðir séu heppilegastar og hvar eigi að byrja. Einmitt af þeim ástæðum tel ég nauðsynlegt að kanna möguleika á þeim kostum sem í boði eru á hverjum stað svo að í framhaldinu verði farin sú leið sem heppilegust reynist. Hér er í reynd farið fram á að könnuð verði hagkvæmnin. Undir það hlýt ég að taka.

Gerð samgöngumannvirkja eru landvarnir okkar Íslendinga og þrátt fyrir þau skref sem stigin hafa verið í gerð jarðganga tel ég að of hægt hafi miðað. Við búum í harðbýlu landi þar sem vetrarveður gera samgöngur erfiðar. Með nútímatækni í vegagerð er hægt að komast hjá ýmsum annmörkum af völdum veðráttunnar og einkum eru jarðgöng hentug í því skyni.

Herra forseti. Ég legg til að þáltill. verði að lokinni umræðu vísað til síðari umræðu og hv. samgn.