Varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 12:06:48 (1217)

2000-11-02 12:06:48# 126. lþ. 19.2 fundur 47. mál: #A varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum# þál., SvH
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[12:06]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð vegna ummæla hv. 5. þm. Vestf. Ég vek athygli á því hvað hér segir í ályktuninni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta kanna hagkvæmni þess að gera jarðgöng úr botni Ísafjarðar ...``

Og hagkvæmni þess að leggja veg yfir þvera firði, Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð. Þarna er ekki verið að leggja til að hverfa frá þeim áætlunum sem uppi hafa verið eða rjúfa eina eða neina samstöðu. Ég held að til framtíðar litið hljóti það að greiða fyrir málum ef slíkar rannsóknir hafa farið fram.

Hitt liggur alveg ljóst fyrir, að samgöngur eru undirstaða búsetunnar, ekki síst í svo erfiðum landshluta sem Vestfjörðum, undirstaða alls, félagsmála, heilbrigðismála og atvinnumála. Það þarf ekki upp að telja.

Ég undrast þess vegna að hv. þm. skuli leggja lykkju á leið sína til þess að lýsa yfir andstöðu við þessa tillögu vegna þess að auðvitað rær þessi tillaga að framförum í þessum málum. Annað mál er forgangsröðun sem kemur þessu ekki við.