Varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 12:11:15 (1219)

2000-11-02 12:11:15# 126. lþ. 19.2 fundur 47. mál: #A varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[12:11]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum hlýtur að leiða umræðuna að samgöngum Vestfjarða almennt enda tel ég tilgang hennar einmitt vera að árétta stöðu fjórðungsins varðandi vegasamgöngur og að þar beri að huga að öllum þeim leiðum sem gætu verið til þess að takast á við og styrkja samgöngur til framtíðar innan þessa fjórðungs og til hans og frá.

Þess vegna verður að harma það, herra forseti, að ekki skyldi hafa verið myndarlegar og markvissar fylgt eftir þeim jarðgangaframkvæmdum sem hafnar voru fyrir hartnær um tíu árum á Vestfjörðum. Síðan þeim framkvæmdum lauk hefur orðið langt hlé á framkvæmdum á vegum hins opinbera við jarðgangagerð hér á landi. Jarðgöng eru fyrir einangraðar byggðir, fjallabyggðir eins og Vestfirði, Austfirði og eins og víðar háttar til einnig, t.d. á Norðurlandi, einmitt einn mesti möguleikinn til að styrkja samgöngur. Og við erum að upplifa stöðugt meiri tækni og hagkvæmari vinnu við að gera jarðgöng.

Því ber að harma að það skuli kannski líða heill áratugur, og jafnvel meir, frá því að jarðgangagerð lýkur á Vestfjörðum og þangað til næstu jarðgöng verða opnuð á vegum hins opinbera. Þetta hljótum við að gagnrýna í þeirri sýn og þeirri framkvæmd sem fylgt hefur verið og unnið er eftir af hálfu stjórnvalda í vegamálum. Hér þarf virkilega að taka á.

Þá ber einnig að horfa til þess að á liðnu ári --- eða reyndar á þessu ári, á síðasta þingi --- var samþykkt vegáætlun til næstu fjögurra ára þar sem góðu heilli var lagt til að stóraukið fjármagn yrði veit til vegamála, vegagerðar og jarðganga vítt og breitt um landið. En því miður, herra forseti, urðu þeir landshlutar þar sem eru hvað erfiðastar vegasamgöngur, þar sem eru hvað lengstir malarvegir, þ.e. Vestfirðir og Norðausturland, út undan þegar verið var að úthluta stórauknu fé til samgöngubóta samkvæmt vegáætlun. Herra forseti. Það hlýtur að skjóta skökku við miðað við þær gífurlegu þarfir og þá erfiðu stöðu sem fólk býr við þarna.

[12:15]

Herra forseti. Ég tel að þessi tillaga ætti síður en svo að raska samstöðu þingmanna Vestfirðinga um þá forgangsröðun að ráðast í auknar vegasamgöngur á Vestfjörðum. Hún ætti miklu frekar, herra forseti, að hvetja þingmenn Vestfirðinga til að beita sér enn harðar og taka enn harðar á vegamálefnum á Vestfjörðum og fá til samgangna aukið fjármagn á næstu árum. Það er það sem málið snýst um. Ég tek því svo að þessi tillaga sé einmitt ábending um fleiri kosti að skoða, en fyrst og fremst hvatning til Alþingis og jafnframt þingmanna Vestfirðinga um að sækja fastar á fyrir sinn fjórðung um fjármagn til vegamála.