Ferjuaðstaða við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 12:46:41 (1224)

2000-11-02 12:46:41# 126. lþ. 19.3 fundur 55. mál: #A ferjuaðstaða við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[12:46]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Sá er hér stendur, 8. þm. Reykv., er meðflutningsmaður þessarar þáltill. af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að góðar samgöngur séu á milli Vestmannaeyja og lands, svo mikilvæg verstöð sem Vestmannaeyjar eru, og í annan stað til að koma með aðrar leiðir til sjóflutninga en hefur verið staðið að til þessa. Þá hlýtur fyrst að koma upp í huga mér: Hvers vegna völdu Vestmanneyingar þá leið að smíða farþegaskip og vöruflutningaskip eða vöruflutningaskip og farþegaskip? Það er dálítið merkilegt að menn skyldu leggja út í það vegna þess að þegar siglt er með vöru á milli tveggja hafna gildir ekki sama og þegar flytja skal farþega. Farþegunum liggur yfirleitt miklu meira á. Sá ferðamáti er orðinn margþættur og margir möguleikar í dag.

Það að eyða mikilli olíu til að ná mikilli ferð með frakt og fólk er umhugsunarefni í dag. Ég er þeirrar skoðunar að það hefði átt að fara þá leið að tvískipta þessari þjónustu við Vestmannaeyjar, annars vegar væru það vöruflutningarnir einir og sér og síðan væri hugsað um hvernig ætti að koma fólki og bílum sjóleiðina á milli lands og Eyja.

Í till. til þál. segir, með leyfi forseta, að möguleiki er á að stytta verulega ferjusiglingu milli lands og Eyja með ferjuaðstöðu á Bakkafjöru sem er stysta sjóðleið, allt niður í 20 mínútna siglingu. Þetta kallar á geysilegt fjármagn ef menn ætla sér að byggja þarna alvöruhöfn. Ég tek líka undir það, eins og segir hér, að með þekkingu á hegðun sandrifja og hliðanna við Bakkafjöru er talið að finna megi aðstæður sem hægt væri að nýta fyrir sérbúið ferjuskip til að sigla að ferjuaðstöðu þar sem leitast væri við að finna sem haganlegastar aðstæður.

Nú er það svo að ekki er langt síðan frétt kom frá Vestmanneyingum um aðila sem eru að skoða alvarlega möguleika á loftpúðaskipi. Ég tek þeirri frétt með mikilli alvöru og tel að frétt frá þessum djarfhuga Vestmanneyingum eigi fullan rétt á sér.

Eflaust muna menn þegar rætt var um og mikið í fréttum talað um Sleipnisslysið svokallaða, norska tvíbotna skipið sem fórst í sinni fyrstu ferð. Nokkur rannsókn hafði farið fram á því, en ekki nægjanleg, hvernig ætti t.d. að haga málum varðandi siglingu þessa tveggja skrokka farþegaskips miðað við misjafnar aðstæður og ölduhæð. Þess vegna var sett takmarkað farleyfi á skipið þannig að í ákveðnum veðrum og ákveðinni ölduhæð mátti skipið ekki sigla. Í Skagerak er mikið af þessum tvíbytnum og þær geta siglt í meiri ölduhæð en loftpúðaskipin sem mikið er af í Ermasundi. En það sem skilur að þessi tvö skip, þ.e. tvíbytnuna og loftpúðaskipið, er að það fyrra eyðir miklu meiri olíu.

Ég tel að full ástæða sé að skoða þetta, miðað við þær samgöngur sem nú þekkjast í Eyrarsundi og víðar. Nú hefur mörgum af þessum skipum verið lagt. Við sjáum stór loftpúðaskip víða sem taka bæði farþega, bíla og jafnvel vörur. Þessi loftpúðaskip þurfa ekki sömu hafnarmannvirki og t.d. Herjólfur. Það væri umhugsunarefni: Getur loftpúðaskip athafnað sig flesta daga ársins milli Eyja og lands? Ég er alveg sannfærður um að ekki væru margir dagar sem væru frátök vegna ferðamáta eins og með loftpúðaskipi. Auðvitað koma til álita áhættuþættir eins og t.d. ef skipið bilaði nálægt landi og einhver ölduhæð væri.

Ég kemur aftur að því að ég tel nauðsynlegt þegar við erum að ræða þessi mál núna, að taka upp málið tvíþætt, þ.e. við horfum fyrst og fremst á farþegana og bílaflutninga, hvernig við komum bílum og fólki sem skjótast á milli Eyja og lands. Síðan eru vöruflutningarnir allt annað mál sem mér finnst að eigi að leysa um leið og við ræðum þessi mál en þau eigi að leysa með öðrum hætti.

Jafnhliða þeirri rannsókn sem yrði gerð ætti að skoða Breiðafjarðarferjuna og ferðir um Ísafjarðardjúp. Stóru loftpúðaskipin, eins og ég sagði áðan, þurfa ekki sömu hafnaraðstöðu og skip sem við erum að nota í dag og eru miklu hraðskreiðari. Ég er sannfærður um að ef við lítum t.d. til Breiðafjarðar, mundi kaup á loftpúðaskipi breyta öllum áætlunum um vegaframkvæmdir þar vestra.

Herra forseti. Ég tel samt sem áður að þó að hugrenningar mínar séu kannski dálítið á skjön við þessa þáltill. sé full ástæða til að vinna áfram að málinu og eins og kemur fram í þáltill. þarf að setja upp sjálfvirkt veðurathugunardufl á Bakkafjöru og öldudufl með ströndinni þar til að rannsaka hvort möguleiki sé á að loftpúðaskip gangi þarna á milli og þá með það í huga að geysilegar hafnarframkvæmdir þurfi ekki að vera í sama mæli og ef við notuðum venjulegt skip.

Þáltill. er af hinu góða og auðvitað styð ég hana sem meðflutningsmaður, en ég beini því til hæstv. samgrh. að full ástæða er til að fara af fullum krafti í að kanna þennan flutningamáta.