Ferjuaðstaða við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 12:54:37 (1225)

2000-11-02 12:54:37# 126. lþ. 19.3 fundur 55. mál: #A ferjuaðstaða við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum# þál., Flm. ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[12:54]

Flm. (Árni Johnsen) (andsvar):

Herra forseti. Hér hafa komið fram ágætisábendingar og vangaveltur hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni. Þó er engin tilviljun að Herjólfur, sem nú er, er smíðaður og teiknaður eins og hann er. Flutningar á fólki og bílum fara nefnilega saman, 83.000 farþegar á ári og 23.000 bílar, þannig að það gengi ekki að flytja bílana í annarri ferð. Þetta er bíla- og farþegaferja en með vöruflutningamöguleikum. Á ári eru samtals u.þ.b. 3.000 gámar og flutningatæki þannig að það er í raun ekki stór hluti af þeim flutningum sem eru með Herjólfi. Skipafélög sinna fyrst og fremst vöruflutningaþættinum, Eimskip með mjög stóran þátt og Samskip með nokkuð stóran. En auðvitað má alltaf velta upp mörgum möguleikum.

En uppsetningin byggist á langri reynslu. Menn hafa velt upp hugmyndunum um Katamaran-skip sem kynnu að geta siglt helmingi hraðar en Herjólfur sem siglir með um 18 mílna hraða, gæti siglt 35--40 mílur. Það er hins vegar þannig með sjólag á því úthafi sem Vestmannaeyjar þurfa að glíma við að stóran hluta ársins væri ekki hægt að nýta aflið í slíkum skipum. Það er einfaldlega ekki hægt að sigla á fullum hraða.

En sjálfsagt er að skoða alla möguleika, það er spennandi. Þó má ekki tefja við slíkt. Það þarf að ganga ákveðið til verka og ég held að hugmyndin um loftpúðaskip milli lands og Eyja sé ekki inni í myndinni á neinn raunhæfan hátt sem stöðugleikatæki. Það gæti verið gaman að prófa það við ákveðnar aðstæður en þróun hefur verið mjög hæg í þeim efnum og ekkert sem bendir til að það dugi til að leysa þessa þörf.