Ferjuaðstaða við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 13:07:21 (1229)

2000-11-02 13:07:21# 126. lþ. 19.3 fundur 55. mál: #A ferjuaðstaða við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum# þál., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[13:07]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir ágætar jarðfræðilegar og veðurfræðilegar skýringar á því sem er að gerast --- hvernig náttúruöflin leika suðurströndina. Auðvitað er það rétt að Vestmannaeyjar skýla ákveðnum hluta suðurstrandar en ljóst er að vandi suðurstrandarinnar og hafnleysa suðurstrandarinnar byggist á þessu tvennu. Annars vegar er mjög opið úthaf og stór úthafsalda og hins vegar hinn gífurlegi framburður í jökulám á Suðurlandi sem gerir það að verkum að milljónir tonna af sandi eru á stöðugu ferðalagi meðfram suðurströndinni.

En tillagan gengur einmitt út á að kanna hvort og þá hvernig megi koma ferjuaðstöðu upp við þessi óvenjulegu skilyrði. Þó að Vestmannaeyjar skýli er vitað að ölduhæð verður mikil en það er það sem á að kanna, hvort ekki megi ráðast gegn þessari stóru úthafsöldu. Af því að ég deili bjartsýni með hv. þm. Árna Johnsen, þá skulum við vona að það takist að finna lausn á þessu en til þess er þáltill. lögð fram.