Ferjuaðstaða við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 13:31:04 (1230)

2000-11-02 13:31:04# 126. lþ. 19.3 fundur 55. mál: #A ferjuaðstaða við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum# þál., LB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum till. til þál. um rannsóknir á ferjuaðstöðu við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum. Hv. flutningsmenn hafa fyrr í umræðunni farið yfir þau rök sem mæla með því að Alþingi álykti að fela samgrh. að hlutast til um það við Siglingastofnun Íslands að hún hefji sem fyrst rannsóknir á ferjuaðstöðu við Bakkafjöru og öðrum aðstæðum í tengslum við ferjuleið frá Vestmannaeyjum til Bakkafjöru.

Í sjálfu sér er ekki miklu við þetta að bæta, virðulegi forseti. Hins vegar er ljóst að öll þau byggðarlög sem ætla sér að lifa af og taka þátt í að bæta sig þurfa að búa við öflugar samgöngur. Það er nánast forsenda þess að þessar byggðir fái áfram að þroskast og dafna. Hér er verið að leggja til að kannað verði hvort möguleiki sé á að byggja upp ferjuaðstöðu við Bakkafjöru.

Ég vil aðeins lýsa því sem skoðun minni í þessu máli að ég styð það heils hugar og lýsi því yfir að ég mun gera það sem í mínu valdi stendur til að tryggja að þetta mál komist í gegnum samgn. þingsins.