Flutningur hættulegra efna um jarðgöng

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 14:09:15 (1240)

2000-11-02 14:09:15# 126. lþ. 19.5 fundur 93. mál: #A flutningur eldfimra efna um jarðgöng# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[14:09]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir efni þeirrar þáltill. sem hér liggur fyrir og undirstrika það sem aðrir hafa reyndar sagt að þetta er hið ágætasta mál og vel hugsað og vonandi að tillagan verði samþykkt.

En af því að eldsneytisflutningar eru hér til umræðu þá vildi ég gjarnan minna á aðra eldsneytisflutninga í gríðarlega stórum stíl sem fara fram alla daga. Allt flugvélabensín er flutt eftir Reykjanesbrautinni, þar sem fara jafnframt um tæplega sjö þúsund fólksbílar á dag, frá Skerjafirði, þ.e. gegnum Reykjavík, og eftir Reykjanesbrautinni til Keflavíkur og þar er þessu tappað á flugvélar eins og allir vita. En allur þessi flutningur er algjörlega óskiljanlegur því að fyrir nokkrum árum var byggð sérstök höfn í Helguvík með þátttöku Bandaríkjamanna og færð voru sem sérstök rök fyrir þörfinni á þeirri höfn að þá þyrfti ekki lengur að flytja eldsneyti eftir Reykjanesbraut. Það urðu allir afskaplega glaðir með það og hlökkuðu til að sú höfn kæmi upp og þar með væru eldsneytisflutningar úr sögunni. En því miður hefur sú raunin ekki orðið á, eldsneytisflutningar aukast með hverju árinu sem líður því alltaf er flugumferð heldur að aukast um Keflavíkurflugvöll.

Ég vildi bara vekja athygli á þessu. Það mál sem hér liggur fyrir er gott mál og sjálfsagt að taka undir það en það eru því miður víðar eldsneytisflutningar sem þyrfti að taka til endurskoðunar.