Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 14:18:34 (1243)

2000-11-02 14:18:34# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., Flm. KLM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Flm. (Kristján L. Möller) (frh.):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1998, um loftferðir, með síðari breytingum. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Lúðvík Bergvinsson, Einar Már Sigurðarson, Svanfríður Jónasdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Frumvarpið er um að 4. mgr. 71. gr. a laganna falli brott.

Í grg. með frv. segir svo, með leyfi forseta:

,,Á síðasta þingi voru með lögum nr. 74/2000 tekin upp svokölluð leiðarflugsgjöld á flugleiðum innan lands. Þessi gjöld eru nýmæli hér á landi. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi til framangreindra laga er þessu gjaldi ætlað að standa straum af kostnaði vegna flugleiðsöguþjónustu við flugrekendur.

Á fundi samgöngunefndar kom fram hjá fulltrúum samgönguráðuneytis og Flugmálastjórnar að þessi kostnaður væri tæpar 200 millj. kr. á árinu 2000 og gert var ráð fyrir að innheimta 30 millj. kr. fyrir árið 2000 (júní--desember) og tæpar 50 millj. kr. á árinu 2001. Var á þeim að heyra að stefnt væri að því að gjaldið stæði straum af öllum kostnaðinum í framtíðinni.

Frumvarpið var sent nokkrum aðilum til umsagnar sem allir mótmæltu þessu nýja gjaldi á innanlandsflugið. Þeir bentu á að ný gjaldheimta mundi fara beint út í verðlagið, með öðrum orðum yrði tekinn upp flugmiðaskattur.``

Í umsögnum ýmissa aðila var þessari nýju gjaldheimtu mótmælt.

,,Í umsögn Flugleiða og dótturfélagsins, Flugfélags Íslands hf., sagði m.a.:

,,Öðru máli gegnir um nýmæli í síðari hluta 2. gr. þar sem ætlunin er að lögfesta álagningu nýrra leiðarflugsgjalda í innanlandsflugi, og innheimta á ,,fyrir hvert flug með blindflugsheimild eða á blindflugsleiðum``. Samkvæmt formúlu, sem gilda á um þessi nýju gjöld, þýðir að greiða þarf t.d. 10,65 kr. fyrir hvern floginn kílómetra Fokker 50 flugvélar í innanlandsflugi. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að þessu nýja gjaldi sé ætlað að skila Flugmálastjórn um 30 millj. kr. viðbótartekjum í ár.``

Aðdragandi þessarar nýju gjaldtöku af innanlandsfluginu kom fram á fundi sem samgönguráðuneytið hélt 19. ágúst 1999 með fulltrúum sex íslenskra flugrekenda. Á þeim fundi kom m.a. fram að hér væri ,,aðeins um fyrsta stig slíkrar innheimtu`` að ræða.``

Ég vek athygli á þessu, herra forseti, að hér er aðeins rætt um þetta sem fyrsta stig. Það bendir til þess sem kom fram á fundi nefndarinnar frá fulltrúum samgrn. að hér hafi verið ætlunin að láta flugrekendur greiða allan þann kostnað sem væri af þessu flugi, eða tæpar 200 millj. Hér kemur fram, herra forseti, í umsögn þeirra aðila sem sátu þennan fund að boðað hefði verið að þetta væri fyrsta stig. Flugrekendurnir mótmæltu harðlega slíkum viðbótarálögum og vitnuðu í því sambandi til þeirrar staðreyndar að íslenskt innanlandsflug hefur um árabil verið rekið með töluverðu tapi. Talið er að tap þessara flugrekstraraðila síðustu þrjú ár sé um 1 milljarður kr.

Samtök ferðaþjónustuaðila mótmæltu þessum nýja skatti einnig og vitnuðu þar í samþykkt þáltill. um byggðamál þar sem þeir telja að þessir auknu skattar á innanlandsflugi muni hamla gegn því sem þar kom fram. Einnig varar Alþjóðaflugmálastofnunin mjög við þessu og segir m.a.:

,,Í yfirlýsingu fastaráðsins eru aðildarríkin sérstaklega hvött til varkárni í stefnumörkun sinni við álagningu leiðarflugsgjalda og að þau taki tillit til þeirra áhrifa sem slík gjaldtaka hafi á notendur, sérstaklega flugrekendur sem gætu þurft að hækka gjaldskrár með hliðsjón af auknum kostnaði við ný og hærri gjöld.``

Það er einmitt þetta sem komið hefur fram og kom fram núna síðsumars þar sem flugfélögin vitnuðu til þess að hinn nýi flugmiðaskattur ríkisstjórnarinnar væri að leggjast þar á og að hækka þyrfti farmiða sem því næmi.

Íslandsflug mótmælti þessari upptöku líka. En það sem er ansi skondið er það að flugráð fjallaði um þetta frv. á 32. fundi sínum 23. mars sl. og í b-kafla umsagnar þess segir svo um leiðarflugsgjöldin:

,,Í ljósi þeirrar erfiðu afkomu á innanlandsflugi sem raun ber vitni, þar sem sífellt fækkar flugrekendum og áfangastöðum er nauðsynlegt að sýna varkárni við ný gjöld og skoða þarf vel hvaða áhrif þau hafa á notendur. Flugráð er því mótfallið því að setja leiðarflugsgjöld á við núverandi aðstæður og án samhengis við aðra gjaldtöku Flugmálastjórnar.``

Fram kemur í bréfi flugráðs að umsögnin hafi verið samþykkt með fjórum atkvæðum, en einn flugráðsmaður sat hjá.

Það er rétt, herra forseti, að lesa hér upp hverjir sitja í flugráði en þeir eru: Hilmar Baldursson og Óli J. Gunnarsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, sem eru skipaðir af hæstv. samgrh. Í flugráði sitja einnig Gunnar Hilmarsson, sem starfar sem framkvæmdarstjóri þingflokks framsóknarmanna, Árni Johnsen, formaður samgn. Alþingis, og Karvel Pálmason, fyrrv. alþingismaður og héraðshöfðingi í Bolungarvík. Árni Johnsen var reyndar fjarstaddur þennan fund en varamaður hans, Guðmundur Hallvarðsson, sat fundinn. Ég legg áherslu á að flugráð lagðist gegn þessari nýju skattheimtu.

Í grg. segir enn fremur:

,,Þessi nýju leiðarflugsgjöld valda íslenskum flugrekendum enn meiri vandræðum og bætast við þann mikla kostnaðarauka sem orðið hefur vegna olíuverðshækkana undanfarið. Þessi gjaldtaka leggst hlutfallslega þyngst á rekstur smærri flugvéla og gerir rekstur þeirra enn erfiðari en ella. Með þessum flugvélartegundum hefur flugi til ýmissa staða á landsbyggðinni verið þjónað, og veldur þetta nýja gjald því m.a. að flugfélög eru að gefast upp á flugi til minni staða sem eru mjög háðir góðum og öruggum flugsamgöngum.``

Um þetta höfum við rætt nýlega hér á hinu háa Alþingi en við verðum að bíða og sjá hvað kemur út úr því útboði sem nýlega átti sér stað þar sem boðið var út flug til ýmissa minni staða og sjúkraflug.

Upptaka leiðarflugsgjaldanna mun því auka álögur á íbúa landsbyggðarinnar sem nota flug mikið, svo og höfuðborgarbúa og síðast en ekki síst ferðamenn sem fljúga mikið innan lands. Má með sanni segja að þessi flugmiðaskattur, sem lagður hefur verið á af ríkisstjórnarflokkunum, sé enn einn landsbyggðarskatturinn.

Þegar ég segi landsbyggðarskattur þá er eiginlega alveg með ólíkindum hvað mikið fer í gegnum hið háa Alþingi af frv. og tillögum sem innihalda auknar skattaálögur á íbúa landsbyggðarinnar. Það er sama hvort tekinn er hinn svokallaði flugmiðaskattur eða tvær síðustu breytingar á þungaskatti, sem báðar hafa orðið til þess --- ég fullyrði það, það er reyndar alveg sýnt með þá fyrri --- að stórhækka flutningskostnað til landsbyggðarinnar með vöruflutningabílum um allt að 16--60% eftir pakkastærð. Við höfum ekki alveg fengið að sjá hvað kemur út úr nýjustu breytingunni vegna þess að álagning á þungaskatti er að eiga sér stað einmitt um þessar mundir, það er sem sagt að koma að fyrsta tímabili eftir þá breytingu, en ég fullyrði að þungaskatturinn mun töluvert aukast og flutningsgjöld með vöruflutningabílum munu töluvert hækka.

Þegar ég segi landsbyggðarskattur má náttúrlega líka nefna fasteignaskattinn eins og hann hefur verið innheimtur undanfarið. Notað hefur verið grunnverð á fasteignamati á höfuðborgarsvæðinu sem hefur síðan verið flutt yfir á landsbyggðina og íbúar þar látnir borga eftir því. En sem betur fer er það kannski það eina nothæfa úr tillögum tekjustofnanefndar að breyta þeirri skattheimtu þó svo að íbúar landsbyggðarinanr njóti nú ekki þeirrar skattheimtu nema í eitt ár vegna þess að væntanlega munu þeir fá hærra útsvar á sig árið á eftir.

Herra forseti. Í grg. segir að lokum:

,,Auknar gjaldtökur leiða til hærra verðlags og gjald þetta hefur nú þegar átt sinn þátt í þeim miklu verðhækkunum sem orðið hafa á innanlandsflugi og frekari hækkanir eru fram undan.``

Þegar þessi skattur kemur að fullu fram og verður rukkaður á heilu ári mun hann skila meiru til ríkissjóðs og flugfélögin þurfa að hækka fargjöld þegar.

,,Hátt verð á farmiðum í innanlandsflugi mun einnig fækka flugfarþegum á mörgum innanlandsflugleiðum sem aftur leiðir til þess að flugfélög sjá sér ekki fært að stunda slíkan rekstur og gefast upp á starfseminni.`` Eða að við þurfum að borga margfalt meira með því flugi sem við ætlum að styrkja til litlu staðanna úti á landi.

Í frv. eru líka tekin nokkur dæmi um kostnað af flugi innan lands. Til dæmis er tekið sem dæmi Reykjavík--Vopnafjörður. Það kostar tæpar 25 þús. kr. að fljúga fram og til baka. Ég tek það skýrt fram að þetta er fyrsta fargjald, nokkurs konar forgangsfargjald sem maður getur keypt en það er líka tekið sem dæmi að á sama tíma getur maður keypt á nettilboði hjá Flugleiðum ferð til Barcelóna fyrir 17.200 kr. Flugleiðin Reykjavík--Akureyri kostar 16.500 kr. en hægt er að kaupa far til Glasgow fyrir 15.300 kr. á sama tíma. Til Kaupmannahafnar kemst maður fyrir 18.400 kr. sem er svipað gjald og borgað er fyrir flug frá Reykjavík til Egilsstaða. Það er því ljóst að flug hér innan lands er mjög dýrt og líka ljóst að þetta mikla tap og taprekstur sem hefur verið hjá flugfélögum undanfarin ár sýnir að þau þola ekki neinar álögur. Þess vegna er það í rauninni arfavitlaus leið hjá hæstv. ríkisstjórn að beita sér fyrir þessari skattheimtu sem vitað var fyrir fram að mundi fara beint út í miðaverðið eins og allar umsagnir allra aðila sögðu til um, sama hvort það var Flugfélag Íslands, Íslandsflug, samtök ferðaþjónustuaðila, flugráð eða hver sem var. Allir vöruðu við þessu sem svo hefur komið á daginn.

[14:30]

Herra forseti. Það er af þessum sökum sem við flm. leggjum til að gjaldtökuákvæði þetta verði fellt úr gildi og að hæstv. ríkisstjórn viðurkenni að þetta hafi verið mistök. Þessi skattheimta á sér enga stoð í raunveruleikanum. Verið er að leggja skatt á þá sem geta ekki greitt af þessu innanlandsflugi sem berst í bökkum og á í miklum erfiðleikum og við erum í miklum vandræðum með.

Staðreynd málsins er sú að flugmiðaskatturinn, sem talið er að geti orðið um 30 millj. á þessu ári, sem er ekki fyrir nema kannski hálft árið, hann gæti farið upp í um 50 millj. á næsta ári, hefur farið út í verðlag flugmiða og mun gera það áfram á næsta ári þegar af þessu verður.

Ég vek líka athygli á því að á fundi í samgn. kom það skýrt fram hjá fulltrúum samgrn. sem kynnti þetta frv. og fylgdi því þar úr hlaði að þetta væri aðeins fyrsta stig. Með öðrum orðum var talað um það þar að notendur þessarar þjónustu, flugrekendur, ættu að borga allan þennan kostnað 100%. Það kemur líka fram í gögnum, m.a. sem menn hafa séð hjá fjárln., að þar var þetta hugsað svolítið öðruvísi. Þetta var hugsað sem stighækkandi jafnvel þó að breyta þyrfti lögum í því sambandi eins og hér hefur komið fram. Þessi skattheimta er sannarlega bundin í lög og það þyrfti þá að breyta þeim lögum til þess að það gerðist. Það er því alveg ljóst að ætlunin var í byrjun að gera þetta, enda kom það fram á fundi samgn. meðal samgöngunefndarmanna að álögur væru að hrannast upp á flugið í landinu og þetta væri enn einn skatturinn sem lagður væri á þá aðila. Það kom með öðrum orðum fram hjá fulltrúum samgrn. að þeir sem nota þessa þjónustu ættu að borga hana að fullu þegar fram líða stundir.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgn. til frekari umfjöllunar.