Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 14:42:52 (1249)

2000-11-02 14:42:52# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[14:42]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skildi ekki allt af því sem sagt var áðan en einhverju náði ég. Ég verð að segja í fyrsta lagi að ég held að innanlandsdeild Flugleiða eða Flugfélags Íslands fyrrverandi hafi verið rekið með tapi í áratugi og hafi ekkert að gera með þann hrunadans samkeppninnar sem hv. þm. talaði um áðan.

Í öðru lagi velti ég því fyrir mér undir ræðu hv. þm. hvort hann sé þeirrar skoðunar að taka eigi um það sérstaka ákvörðun og þá væntanlega af opinberum aðilum hverjir mega reka fyrirtæki og hverjir ekki, hverjir eigi að fljúga og hverjir ekki því að ef ég skildi hv. þm. rétt var hann mjög ósáttur við þá verðmyndun sem varð til í umræddri samkeppni. Ef hann er með einhver önnur verðmyndunartæki en að láta fyrirtæki keppa á markaði, þá held ég að hv. þm. verði að gera grein fyrir því. Væntanlega er hann að vísa til afturhvarfs til gömlu Verðlagsstofnunarinnar sem tók um það ákvörðun hvað hlutirnir ættu að kosta, hvað sokkabuxurnar ættu kosta, hvað skórnir ættu kosta o.s.frv. og jafnvel voru verðstöðvanir. Væntanlega er hv. þm. að vísa til þess. Ég held að mikilvægt sé að þetta liggi fyrir því að það er algerlega fráleitt að koma hér upp og tala um hrunadans samkeppninnar o.s.frv. í ljósi þess að innanlandsflugið hefur meira og minna verið rekið með tapi í áratugi ef ekki meira. Hv. þm. verður þá að skýra miklu betur hvað hann á við því það þjónar engum tilgangi að koma með allt að því ofstopayfirlýsingar án þess að neitt sé á bak við þær.