Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 15:00:57 (1255)

2000-11-02 15:00:57# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[15:00]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að fá þær upplýsingar sem hér er deilt um, þ.e. hvaða upphæðir er um að ræða. Ég hef mínar upplýsingar frá Flugmálastjórn og tel eðlilegt að samgn. fái það svart á hvítu frá Flugmálastjórn hvaða tölur er hér um að ræða. Ég sé ekki ástæðu til að hv. þm. Kristján L. Möller þurfi að efast um að þær séu réttar fyrr en hann fær upplýsingar um annað. Ég hef hins vegar fengið þessar upplýsingar.

Mér heyrðist hv. þm. reyndar tala um nánast sömu upphæð og ég. Hann talaði um báðar leiðir en ég talaði um aðra leiðina, 76 kr. aðra leiðina. Að sjálfsögðu er hægt að skoða þær tölur sem hv. þm. hafði reiknað út og þetta er allt að skýrast. Ég hef hins vegar ástæðu til að ætla að fleiri flugfélög en Flugfélag Íslands greiði þennan skatt. Það eru fleiri félög sem tryggja kannski einhverja samkeppni sem er af hinu góða. Í það minnsta buðu nokkuð mörg félög í innanlandsflugið, þ.e. í leiðir sem boðnar voru út. Sem betur fer eru fleiri félög í landinu.