Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 15:07:11 (1258)

2000-11-02 15:07:11# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er svona á mörkunum að miklu sé að svara í þessu andsvari. Það liggur auðvitað alveg ljóst fyrir, hæstv. forseti, að grg. í frv. til laga þarf að semja án þess að þar sé vitnað til orða embættismanna sem auk þess liggur fyrir að eru ekki staðfest. Það var sú athugasemd sem ég hafði hér uppi.

Varðandi ósk mína um stuðning frá Samfylkingunni þá verð ég að viðurkenna að í erfiðum málum þá er sama hvaðan gott kemur í stjórnmálum. Þannig er að við þurfum í mjög mörgum málum að vinna saman í þinginu og séum við sannfærð um að unnið sé gegn innanlandsfluginu með áformum um að leggja niður Reykjavíkurflugvöll þá hljóta fulltrúar allra flokka að sameinast gegn því.

Ég vil segja hv. þm. að sjálfstæðismenn munu að sjálfsögðu, í öllu sínu veldi, sameinast um að koma á kjörstað, hvað svo sem um er kosið, og þeir eru býsna margir í höfuðborginni. Ég held að það sé mikill vilji til þess að standa þannig að málum að við byggjum upp í höfuðborginni fremur en, eins og með því að leggja af flugvöllinn, að rífa niður atvinnustarfsemi sem er mikilvæg, bæði höfuðborgarsvæðinu og landinu í heild.