Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 15:09:17 (1259)

2000-11-02 15:09:17# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki miklu við þetta að bæta en ef ég þekki þessa sögu rétt undanfarin ár þá held ég að eina aðförin gegn innanlandsfluginu hafi verið umræddur flugmiðaskattur. Ég man ekki eftir einni einustu aðför annarri. Í kjölfar þess að fyrirætlanir voru kynntar um þennan svokallaða flugmiðaskatt þá hætti annar aðalaðilinn á innanlandsmarkaði flugi, Íslandsflug. Það var nokkurn veginn í kjölfarið á því að þessi fyrirætlun um flugmiðaskatta var tilkynnt 19. ágúst 1999, ef ég man það rétt, að annar meginaðilinn í innanlandsfluginu hætti áætlunarflugi.

Ég held, viðurlegur forseti, að ef einhver aðför hefur verið gerð að innanlandsfluginu þá sé það flugmiðaskatturinn. Ég held að það sé algerlega út úr kortinu að hæstv. samgrh. ætli síðan að koma þeirri aðför yfir til Reykjavíkurborgar. Því miður fer Sjálfstfl. enn með samgrn. en það er náttúrlega ekki útséð með hvort það breytist ekki fljótlega.