Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 15:12:40 (1261)

2000-11-02 15:12:40# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Hér fer fram sérstaklega áhugaverð umræða. Mörg gullkornin hafa fallið úr þessum ræðustól og eiginlega alveg dæmalaust hvað hæstv. ráðherra hefur leyft sér að segja við umræðuna máli sínu til stuðnings. Það er dálítið gaman að því, af því að hann er að velta fyrir sér einingu milli flokka í stjórnarandstöðunni, að í þessari umræðu kemur berlega í ljós að það er ekki alltaf eining í Sjálfstfl. Það hefur komið fram í þessari umræðu.

Hins vegar sakna ég Framsfl. við umræðuna. Ég hefði svo gjarnan viljað að fulltrúar þess flokks hefðu tekið þátt í þessari umræðu. Hvort skilja beri fjarveru þeirra þannig að þar sé fullkomin eining um málið sem við erum hér að gagnrýna en ráðherrann ber svo fyrir brjósti og ver svo hatramlega skal látið kyrrt liggja.

Ráðherrann notar óspart orðið kostnaðarvitund. Það er sennilega uppáhaldsorð íhaldsins. Þegar setja skal á þjónustugjöld eða álíka álögur í stað sameiginlegra útgjalda í sérstökum málum, þegar verkefni eru flutt frá samneyslunni og fólk látið borga fyrir með þjónustugjöldum, þá er alltaf talað um kostnaðarvitund. Þegar gjöldin hækka á erfiðum tímum til að halda öllu í skefjum þá heita það ekki hækkanir eða íþyngjandi afgreiðsla mála hjá ríkisstjórninni. Nei, þá heitir það að efla kostnaðarvitund.

Mér finnst einnig athyglisvert þegar ráðherrann réttlætir það að taka upp þessi nýju gjöld sem munu valda hækkunum. Það er óumdeilt þó menn togist á um hversu hátt gjaldið er á sæti, á autt sæti, á ferð báðar leiðir eða aðra leiðina og aldrei aftur heim. Ráðherrann talar hins vegar um málið í því samhengi að hann ætli að bjóða út flug til smærri staða og styrkja það flug. Það er auðvitað sjálfsagt mál. Ég veit ekki hvernig ríkisstjórnin mundi lifa af ef hún ætlaði ekki að að tryggja flug á þá fjarlægu staði sem ráðherrann nefndi. En það mál er algerlega óháð því sem við erum að tala um nú.

[15:15]

Hins vegar kemur ráðherrann alltaf að Reykjavíkurlistanum hvort heldur er í umræðu um vegamál eða núna um flugmál og skatta á flugið. Mér er farið að virðast sem Reykjavíkurlistinn sé eins og rauða hættan í augum samgrh. og e.t.v. flokksins alls vegna þess að hann getur ekki varist í nokkru máli öðruvísi en reyna að tengja það Reykjavíkurlistanum. Nú er það Reykjavíkurlistinn sem er vondi flokkurinn sem ógnar innanlandsflugi af því að það hefur verið nefnt að hugsanlega fái fólk að greiða um það atkvæði hvað eigi að verða með flugvöllinn árið 2016. Ég hefði haldið að þetta væri lýðræðislegasta afgreiðsla sem hægt er að hugsa sér, að gefa íbúunum tækifæri á að segja hug sinn og hlusta á raddir þegnanna. Nei, Reykjavíkurlistinn er orðinn ógnvaldur og það er Reykjavíkurlistanum að kenna er ráðherrann setur fjármagn í hina eða þessa vegagerðina og Reykjavíkurlistinn er dreginn inn sem óþolandi ógnvaldur þegar við erum að ræða það að ráðherrann er að setja á nýtt gjald sem er íþyngjandi í fluginu.

Hvað segir þessi afstaða okkur og það að ráðherrann fer að tala um vinnubrögð varðandi greinargerð og hvort það megi vísa til orða manna sem fari ekki vel á þegar ráðherrann virðist sjálfur --- eða það hlýtur að vera með vitund ráðuneytis hans þegar fulltrúar úr ráðuneytinu koma inn í nefndir þingsins, inn í flugráð til þess að tilkynna um fyrirhugaðar álögur og það liggur fyrir og hefur komið fram í þessari umræðu að það var gengið til atkvæða í flugráði um þessa ráðstöfun. Ég veit ekki betur en flokksbróðir ráðherrans hafi viljað að það kæmi fram í umræðunni að hann hefði setið hjá við afgreiðslu þessa máls í flugráði. Af hverju er þá verið að tala um að það sé leyndarmál hvernig afgreiðslan var eða um hvað var rætt varðandi fyrirhugaðar álögur? Þegar búið er að taka málið fyrir bæði í flugráði og samgn. fer að verða erfitt fyrir ráðherrann að leggjast gegn því eða gagnrýna það að menn skuli hafa áhyggjur af því sem fram kom á þessum stöðum og í þessum nefndum og ráðum.

Staðreyndin er auðvitað allt önnur en að þetta sé að vefjast fyrir hæstv. ráðherra samgöngumála. Málið er að hér er rekin afar ólánleg byggðastefna. Málið er að orð og athafnir fara hvergi saman hjá þessari ríkisstjórn. Það er að. Um það snýst málið. Það eru haldnar lærðar ræður um það hvernig menn vilja halda á málum til þess að byggð sé tryggð um allt land og til að afstýra flutningi til suðvesturhornsins. En gjörningurinn er fullkomlega í blóra við þessar yfirlýsingar eins og berlega kemur fram í þessari umræðu. Menn segja eitt en gera allt annað.

Hér hefur verið tekin umræða um samkeppni í fluginu. Ég ætla ekkert inn í þá umræðu. En það er alveg ljóst að það hefur verið að gerast að flug er fellt niður á fleiri og fleiri staði. Á hverjum bitnar það? Fyrst og fremst landsbyggðarfólkinu. Landsbyggðarfólk er órólegt. Sveitarstjórnarmenn kalla harkalega eftir aðgerðum og skilningi á þeim vanda sem við blasir. Ég minnist þess þegar Samfylkingin var á Húsavík og ræddi við bæjarstjórnina þar í vor að það voru heitstrengingar varðandi það að nú ætti að fara að leggja af flugið og það mætti ekki gerast að gerð væri krafa um að heimamenn, líka í þessum málaflokki, þyrftu að leggja fram fé af takmörkuðum tekjum sveitarfélaganna. En hvað gerðist í kjölfarið? Nákvæmlega það að menn enduðu með því, til að reyna að fresta því að flugið legðist af, að borga fyrir einhver ákveðin sæti á viku í fluginu. Nákvæmlega það sem menn höfðu sagt um: ,,Þetta má ekki gerast. Það er ekki hægt að gera kröfu um að við komum líka með greiðslu þarna inn af takmörkuðum tekjustofnum okkar. Jú, jú, greiðum niður flugið til að það flug leggist ekki af á Húsavík.``

Hæstv. ráðherra segir að verið sé að fara rangt með tölurnar í þessu máli, þær séu ekki 50--60 millj., heldur 30 millj. núna. Það hefur komið fram í orðum framsögumanns í þessu máli að þessi nýi skattur á flugfarþega í innanlandsflugi muni skila ríkissjóði 50--60 millj. kr. á næsta ári. ,,30 núna``, segir hæstv. ráðherra. Hvað verða þær næst? Hvað verða þær þar næst? Við vitum nefnilega hvaða þróun verður þegar menn byrja með þessi svokölluðu gjöld, hvort sem þau heita þjónustugjöld eða annað. Um þau gildir bara eitt lögmál og það er upp á við. Ég spyr: Hvað er að þessari ríkisstjórn? Hún virðist fullkomlega úr takti við fólkið í landinu. Hún virðist alls ekki skilja hvað felst í ákvörðunum sem teknar eru og ekki hafa hugmynd um á hverjum þær bitna.

Samt kemur það fram að samtök í ferðaþjónustu hafa sent bréf til samgrh., forsrh., fjmrh., flugráðs, flugmálastjóra, Sambands ísl. sveitarfélaga og vakið athygli bæði á stefnumörkun ríkisstjórnarinnar sem eru orð á blaði um að treysta undirstöðu byggðar í landinu og að auka veg ferðaþjónustunnar. Svo er bara reynt að gera lítið úr þessu og reynt að deila niður í flugvélarnar með sætum, setnum eða ósetnum, seldum eða óseldum og finna út einhverja lága krónutölu.

Það sem stendur upp úr er lánleysi og ólánleg byggðastefna. Nákvæmlega það og ekkert annað, stefnuleysi og skortur á yfirsýn í samgöngumálum yfirleitt. Það hefur komið hér fram, ekki bara í þessu máli heldur í öðrum málum í dag. Við hljótum að spyrja: Hvenær ætlar ríkisstjórnin að reyna að fara að skoða mál í samhengi og axla ábyrgðina sjálf í stað þess, eins og hér gerist aftur og aftur, að benda á rauðu hættuna og Reykjavík og að Reykjavíkurlistinn sé óvinur allra. Það er staðreynd eins og hér hefur komið fram hver fargjöldin eru og það er auðvitað fullkomlega úti í vindinum að fólk skuli þurfa að borga nærri 25 þús. kr. á einhvern stað á Íslandi í innanlandsflugi. Þó þetta sé að stærstum hluta byggðamál eins og komið hefur fram í umræðunni í dag þá verðum við að líta á það að þetta hefur líka áhrif á suðvesturhorninu. Auðvitað viljum við að fólk sæki landsbyggðina heim. Við viljum að fólk ferðist innan lands. Við viljum að fólk skoði landið sitt, dvelji á landsbyggðinni og nýti sér ágæta þjónustu sem þar er nú. En þegar það er orðið svo miklu hagstæðara að skreppa til útlanda þá er verulega pottur brotinn. Ég geri ekkert með að það orsakist af hinum og þessum tilboðum. Þetta er spurning um yfirsýn. Þetta er spurning um stefnu og þetta er spurning um skilning á högum fólks úti á landi.

Herra forseti. Mér finnst dapurlegt hvernig brugðist hefur verið við þessari umræðu í dag af hálfu ráðherrans. Ég get ekki sagt í þetta skipti af hálfu stjórnarmeirihlutans vegna þess að flokksbróðir ráðherrans kom hér upp og kallaði eftir því að það kæmi fram að hann hefði setið hjá við afgreiðslu málsins í flugráði.