Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 15:26:14 (1264)

2000-11-02 15:26:14# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir að hafa mætt til umræðunnar því ég held að það eitt út af fyrir sig hafi gert umræðunni mjög gott og skýrt hana að miklu leyti. En það breytir ekki því að undrun þess sem hér stendur og ýmissa annarra á því hver hin raunverulega stefna sé er enn til staðar og hefur ekki verið skýrð svo neinu nemi.

Virðulegi forseti. Ég vildi nefna nokkur atriði. Í fyrsta lagi er það þessi grundvallarspurning eða hugmyndafræði sú sem hæstv. samgrh. virðist ganga út frá, þ.e. þessi hugmynd um kostnaðarvitund, að með því að leggja þetta gjald á sé líklegt að farþegar væntanlega skynji hvað kosti raunverulega að segja mönnum til vegar í loftunum þannig að það þeir komist klakklaust á leiðarenda.

Til þess að fjármagna þetta eru náttúrlega tveir möguleikar. Annars vegar er hægt að greiða þetta af almennum skatttekjum, en að sögn fjmrh. og fleiri þá flýtur út úr öllum hirslum ríkissjóðs nú um stundir svo ég hefði kannski haldið að þær litlu fjárhæðir sem hér eru lagðar á skipti ekki sköpum.

En höldum áfram með umræðuna um kostnaðarvitundina. Sú skattlagning sem um er að ræða er um það bil 10--11% á þessu ári, þ.e. 90% eru fjármögnuð úr ríkissjóði, og um það bil 15--20% á næsta ári ef þessar tölur sem hér eru uppi eru réttar. Ég geng út frá því sem vísu. Kostnaðarvitundin er þá fyrst og fremst falin í því að fá fólk til að átta sig á því hver kostnaðurinn er og að það skuli leggja til 10--15% af heildarkostnaðinum. Það er þá væntanlega sú kostnaðarvitund sem verið er að reyna að draga fram og gera almenningi grein fyrir að það kosti að segja flugvélunum til vegar. Niðurstaða hæstv. ráðherra er því sú að leggja þennan skatt á.

En þá kemur næsta fullyrðing, virðulegi forseti, sem er þessi: Samgrn. hefur nú ákveðið nýja stefnu í þessum málum. Hafa menn ekki orðið varir við þessa nýju stefnu? Þessi nýja stefna felst í því að styrkja ákveðnar leiðir þannig að þegar búið er að skattleggja ákveðinn hluta og taka út úr greininni, þá eigi væntanlega að taka einhverja peninga aftur og setja þá eitthvert annað. Virðulegi forseti. Hugsunarháttur af þessum toga var hér á árum fyrr, og sérstaklega í tíð framsóknarmanna, kallaður sjóðasukk af verstu gerð. Þó hér sé kannski ekki beinlínis um sjóði að ræða þá er a.m.k. verið að færa þetta einhvern veginn fram og til baka og ein skattlagning er rökstudd á grunni einhvers konar kostnaðarvitundar á meðan útgjöldin eru síðan einhvers konar ný stefna í ráðuneytinu. Og ég segi enn og aftur, virðulegi forseti, eins og ég sagði í upphafi: Ég er í sjálfu sér ekki miklu nær um hver sé stefna samgrh. í flugmálum en mér finnst mjög gott að þetta hafi komið fram við þessa umræðu og vil þakka hæstv. samgrh. fyrir það.

Það liggur líka fyrir að Íslandsflug hætti rekstri í kjölfar þess að ákvörðun var tekin um þetta gjald þá, þ.e. þessum áætlanarekstri. Enn þá er þó verið að fljúga einhverjar leiðir innan lands en í þessum samkepnisrekstri er Íslandsflug að mestu leyti hætt og það gerist rétt á eftir að ákvörðun um þetta er kynnt á fundi. Hvort þetta hafi verið kornið sem fyllti mælinn skal ég ekkert um segja en þannig er veruleikinn í tíma.

[15:30]

Virðulegi forseti. Í öllum hátíðarræðum sem hafa verið haldnar á hinu háa Alþingi um byggðamál, um að efla byggðastefnu o.s.frv., hafa samgöngur verið grundvallaratriði. Samgöngur eru og verða grundvallaratriði svo við getum haldið þessu stóra landi okkar í byggð. Þá hlýtur maður að spyrja: Hvaða byggðastefna er það að ráðast á flugvélar og flugrekendur með þessum hætti og leggja á sérstakan flugmiðaskatt? Og ekki bara það heldur er flugmiðaskatturinn bundinn við innanlandsflugið. Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti. Að koma síðan upp og tala um nýja sýn ráðuneytisins nær því vart að vera brandari, það nær því vart að vera fyndið, virðulegi forseti.

Í morgun ræddum við frv. frá hæstv. samgrh. um þurrleigu, skráningu og fleira og kom þar fram að verið væri að leiðrétta mistök frá því á árinu 1991. Það tók ein níu ár að leiðrétta þau mistök en þau eru a.m.k. komin inn í þingið. Ég held sjálfur að það frv. sé til góða þó að það sé ekki rætt hér. En væri ekki lag, hæstv. samgrh. og virðulegi forseti, að við leiðréttum mistökin frá því í fyrra með því að samþykkja þetta frv.?

Auðvitað eru þetta grundvallarmistök. Ég veit svo sem ekki af hvaða ástæðum flugmiðaskatturinn varð til því að honum er í raun og veru ekki ætlað að standa undir kostnaði nema brotabrots af því að reka þetta flugleiðsögubatterí. Það er ekki til þess fallið að skapa neina kostnaðarvitund af því að það er aðeins brot af þeim kostnaði sem mönnum er ætlað að borga. Því segi ég það, virðulegi forseti: Eigum við ekki að leiðrétta þessi mistök?

Sá sem hér stendur á sæti í hv. samgn. og ég mun leggja þessu máli mikið lið. Ég held að flestir muni gera það og ég held að í samræmi við þá stefnu sem birtist í frv. hæstv. samgrh. í morgun eigum við að leiðrétta þau mistök þegar okkur verður á. Auðvitað varð Alþingi á í þessu máli, þetta er ekkert öðruvísi. Við sjáum það líka af þeirri þróun sem hefur í kjölfarið komið á verði á farmiðum innan lands og er á síðu 3 í frv. þar sem það er borið saman við farmiðaverð til útlanda. Auðvitað leysir þetta ekkert öll mál og langur vegur frá því. En þegar okkur verður þannig á held ég, virðulegi forseti, að við eigum að leiðrétta það. Og að reyna að fjármagna 10% af þessum kostnaði, virðulegi forseti, það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta. En ég ítreka að allt sem hefur gerst eftir að þessar fyrirætlanir voru kynntar hefur verið til þess fallið að gera möguleika landsmanna á því að fljúga innan lands erfiðari, dýrari og verri.

Því segi ég, virðulegi forseti, við skulum sameinast um að samþykkja þetta frv. því að það gerir a.m.k. það að leiðrétta mistök hæstv. samgrh. og meiri hluta þingsins.