Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 15:51:08 (1267)

2000-11-02 15:51:08# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[15:51]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Sem svar við spurningu hv. þm. get ég sagt frá því eins og kemur fram í fjárlagafrv. og er skýrt á bls. 288, minnir mig, að gert er ráð fyrir að flugleiðsögugjaldið fyrir árið 2001 verði 30 millj. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. er það ekki innheimt á þessu ári nema hluta ársins og verður þess vegna lægri upphæð, væntanlega 20 millj. og þar af leiðandi er um 10 millj. kr. hækkun að ræða milli ára, vegna þess að það er ekki innheimt nema hluta ársins.

Hins vegar er um að ræða með sama móti breytingu á veðurþjónustugjaldinu sem nemur þessum 5 millj. þannig að þar verða innheimtar 15 millj. Samtals eru þetta 45 millj. sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að innheimta á árinu 2001. Þetta er því alveg réttur skilningur sem hv. þm. leggur í hið ágæta minnisblað sem kom frá samgrn.