Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 15:52:33 (1268)

2000-11-02 15:52:33# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[15:52]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp aftur vegna þess að hv. 6. þm. Suðurl., Lúðvík Bergvinsson, átti erfitt með að skilja fyrri ræðu mína og vil ég því hnykkja á í mjög fáum hnitmiðuðum setningum hvað ég meina í þessu máli.

Ég vil minni álögur. Þess vegna skrifa ég undir þetta frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1998, um loftferðir, með síðari breytingum. Þar erum við sammála, ég tel þetta mjög óheppilegt skref í ljósi staðreynda, í ljósi stöðunnar eins og hún er í dag gagnvart flugi út á landsbyggðina.

Ég styð það líka að styrkt sé flug til smærri staða og er því sammála áformum hæstv. samgrh. um að styðja flug til Siglufjarðar og væntanlega Húsavíkur, Þórshafnar og Vopnafjarðar og síðan Akureyri--Ísafjörð og Akureyri--Egilsstaði. Þetta finnst mér sjálfsagður hlutur, en álögur á flugið í heild sinni tel ég að geri hlutina enn verri en þeir eru þegar orðnir. Það er búið að lýsa því hvernig þróun verðlags hefur verið, að það sé orðið dýrara og í sumum tilfellum miklu dýrara að fljúga á innanlandsleiðum en fljúga frá Keflavík til útlanda.

Ég get ekki betur fundið en að þessu leyti séum við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson algjörlega sammála. Hins vegar vafðist það fyrir þingmanninum að ég sæi fyrir mér að setja ramma um þessa starfsemi. Ég tel að samkeppnin á svona litlum markaði sé ákaflega hæpin. Við höfum líka reynsluna og við erum að súpa seyðið af reynslunni. Það var fyrirséð hvernig færi. Það var fyrirséð að svo hörð samkeppni á svo litlum markaði mundi leiða til þess að bæði félögin sem kepptu færu mjög illa út úr því og þau verð sem við erum að sjá núna eru einfaldlega afleiðing af því að bæði félögin átu upp sitt eigið fé.

Að borga 16 þús. fyrir flug frá Akureyri til Reykjavíkur er algjörlega óviðunandi. Ég vil þess vegna lýsa eftir stuðningi við áform og setja inn í umræðuna nauðsyn þess að grípa til fleiri aðgerða til að styrkja innanlandsflugið. Það er algjör nauðsyn. Gripið hefur verið til aðgerða til að styrkja flugið til útlanda með ýmsum hætti og auðvitað eru neytendur í landinu öllu að njóta góðs af því og fá ferðir til útlanda fyrir smápening miðað við það sem það kostar að fljúga hér innan lands.

Við höfum mörg dæmi um að settur er rammi um opinbera þjónustu af ýmsu tagi þó svo að sú þjónusta sé rekin af einkaaðilum. Það er t.d. rammi um rekstur leigubíla. Mönnum finnst ekki heppilegt að því sé sleppt lausu og markaðurinn sé látinn ráða þannig að einn daginn séu nokkrir leigubílar í rekstri og annan daginn nokkur hundruð. Þetta er til þess að hafa stöðugleika og styrkja stöðu neytenda gagnvart þjónustunni. Það er líka fyrirkomulag í sérleyfisbílarekstri o.s.frv.

Það er nauðsynlegt að bæta aðstöðuna úti á landi hvað varðar nýjar blikur sem eru á lofti vegna samvinnunnar um Schengen. Það er okkur lífsspursmál á Akureyri og Egilsstöðum að við getum á sama tíma og í Keflavík, og því vil ég koma sterkt inn í umræðuna, komið inn í þjónustuna á jafnréttisgrundvelli. Það er búið að vinna gríðarlega mikla heimavinnu, kosta til miklum fjármunum bæði austan lands og á Akureyri til þess að auka ferðamannaþjónustu og það er þegar í gangi reglubundið flug að sumarlagi frá landi sem er utan Schengen-svæðisins þannig að á þessi mál verður að líta.

Ég vil fara örfáum orðum um Reykjavíkurflugvöll. Ég er sammála hæstv. samgrh. að mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir landið í heild er auðvitað gríðarlegt. Ég fagna því að sú staða skuli vera uppi að á honum er verið að vinna að endurbótum og staða hans er trygg a.m.k. til 2016. En við megum alls ekki gleyma því að Reykjavíkurflugvöllur er ekki bara fyrir innanlandsflug í landinu. Í gær vorum við að tala um viðbrögð við hugsanlegum eftirskjálftum eða meiri jarðskjálftum á Suðurlandi sem kæmu nær Reykjavík. Ég tel fyrir mína parta að nauðsynlegt sé að Reykjavíkurborg, sem er jú á nesi, hafi flugvöll innan sinna borgarmarka ekki síður sem öryggisatriði fyrir borgarana í borginni en sem þjónustuflugvöll fyrir flugið innan lands. Þetta er nefnilega stórt mál, borgin er byggð á nesi eins og ég segi og fyrir íbúa borgarinnar tel ég að það sé mjög mikið öryggismál hvort sem við erum að tala um jarðskjálfta, eldgos eða aðra náttúruvá að hér sé flugvöllur sem hægt yrði að nota ef til slíks kæmi, sem vonandi verður aldrei.

Virðulegi forseti. Ég vil að síðustu spyrja hæstv. samgrh. hvort það sé ekki hugsunin hjá samgrn. og hvort ekki sé áformað að við gildistöku Schengen verði búið að ganga þannig frá málum á þessum þremur flugvöllum, þ.e. á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík, að í þeim tilfellum sem þarf að nota þá flugvelli vegna flugs erlendis frá verði hægt að nota þá alla á sama tíma. Ég hef upplýsingar um það að ekki er um verulegan kostnaðarauka að ræða, þetta hleypur á kannski 10--20 millj. kr. hvað varðar Akureyri. Ég hef ekki kostnaðartölur um hina vellina tvo. Ég spyr því: Má gera ráð fyrir að þetta geti tekið gildi samtímis þannig að Schengen-skoðun geti átt sér stað á sama hátt á Akureyri, Egilsstöðum og Reykjavík og gildistakan verður á Keflavík?