Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 16:23:39 (1276)

2000-11-02 16:23:39# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[16:23]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er fyrst og fremst Samfylkingin sem er í ógöngum þegar hún áttar sig á því að innanlandsflugið er í vexti. Hvers vegna? Jú, vegna þess að stefna stjórnvalda er mjög skýr, annars vegar í uppbyggingu á þjónustuþættinum og svo hins vegar í að veita ríkisstyrki þar sem um óarðbærar flugleiðir er að ræða. (Gripið fram í.)

Ég man nú ekki alveg eftir því hvort það var ... (LB: Hvar er vöxturinn?) Vöxturinn er í innanlandsfluginu í heild. Hv. þm. getur kynnt sér það ef hann leitar eftir því í samgn. t.d. þar sem hann starfar.

Ég tók eftir því að því var fagnað af hálfu þingmanna við þessa umræðu að nú yrðu gerðar breytingar á fasteignagjöldum. Það var tekið sem dæmi um aðgerðir, nauðsynlegar aðgerðir til þess að snúa frá einhverri villu stjórnarflokkanna varðandi álagningu fasteignagjalda. (Gripið fram í.) Það er nauðsynlegt að minna á, að gefnu tilefni og vegna þess að hv. þm. fór um víðan völl í andsvari sínu, að lögin um tekjustofna sveitarfélaga --- sem er allt annað mál auðvitað --- eru frá árinu 1989 þegar Alþfl. fór með þau mál. Við erum að styrkja landsbyggðina þessa dagana með því að efla innanlandsflugið og lækka fasteignagjöld á íbúum landsbyggðarinnar, sem ráðherra Alþfl. stóð á sínum tíma fyrir að yrði að lögum.