Fjarskipti

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 16:46:00 (1280)

2000-11-02 16:46:00# 126. lþ. 19.6 fundur 159. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[16:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vísaði í tilskipanir Evrópusambandsins og lög þar. Tilskipun 97/66 frá Evrópusambandinu er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Aðildarríkin skulu með landslögum tryggja trúnað í samskiptum sem fara um almenn fjarskiptakerfi svo og í þjónustu sem býðst almenningi um slík fjarskiptakerfi. Einkum og sér í lagi skulu aðildarríkin banna öðrum en notendum`` --- öðrum en notendum --- ,,hlerun, upptöku, geymslu eða annars konar inngrip í eða eftirlit með fjarskiptum liggi ekki fyrir samþykki notenda í hverju tilfelli, nema slíkt sé sérstaklega heimilað í lögum.``

Hér er greinilega verið að vísa til hlerunar á símtölum. Hér er verið að vísa til annarra en þeirra sem þátt taka í samtalinu. Þetta er bann við hlerun en ekki við því að fréttamenn notfæri sér segulbandstæki sem vinnutæki í hagræðingarskyni.