Almannatryggingar

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 18:20:53 (1296)

2000-11-02 18:20:53# 126. lþ. 19.9 fundur 102. mál: #A almannatryggingar# (búsetuskilyrði örorkutryggingar) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[18:20]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Við erum með á Íslandi núna þúsundir Pólverja sem hafa komið hingað í lengri eða skemmri tíma. Nú er mér ekki kunnugt um það af því að ég kann ekki almannatryggingalögin alveg utanað alla daga, ég þarf alltaf að lesa þau öðru hverju mér til heilsubótar, hvort það sé skilyrði að menn búi í landinu til að fá örorkulífeyri. Ég held nefnilega ekki. Það er því nóg fyrir þetta fólk ef það skyldi verða öryrkjar í Póllandi einhvern tímann eftir 10, 20, 30 ár að koma til Íslands í hálft ár, fara svo aftur út og taka örorkulífeyri sinn hér á landi sem væru þá mjög há laun í Póllandi hafi ástandið þar ekki batnað þeim mun meira. Ég held að þetta sé hættulegt. Þetta hefur kannski ekki verið hættulegt hingað til vegna þess að útlendingarnir vissu bara ekkert af þessum möguleika, en með tilkomu netsins og betri upplýsinga verður þetta sífellt hættulegra og hættulegra. Ég vil að menn gái að því nákvæmlega hvort þessi hætta sé til staðar því að ef við fengjum hérna þúsundir örorkulífeyrisþega, ég er ekki að segja að það gerist, en það gæti hugsanlega gerst, þá líst mér illa á stöðu almannatrygginga.