Bætt staða námsmanna

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 18:25:29 (1300)

2000-11-02 18:25:29# 126. lþ. 19.16 fundur 189. mál: #A bætt staða námsmanna# þál., Flm. BjörgvS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[18:25]

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson):

Herra forseti. Tillaga sú til þál. sem hér er mælt fyrir kveður á um bætta stöðu námsmanna og tekur til margra þátta, þátta sem mjög brenna á námsmannahreyfingunni nú um stundir og er brýnt að ráða bráða bót á hið fyrsta. Ef ekki verður tekið af festu og snerpu á þessum málum fjölgar þeim sem ekki sjá sér fært að stunda nám vegna námslána sem eru fjarri raunverulegri framfærsluþörf, hárrar húsaleigu og skorts á námsmannaíbúðum. Svo ekki sé minnst á þá staðreynd að húsaleigubætur skerða námslán vegna ákvörðunar stjórnar LÍN um að svo skyldi vera. Þessar brotalamir í stöðu námsmanna bitna harkalega á námsmönnum utan af landi, efnaminna fólki og barnafólki.

Það er fjarri lagi að jafnt aðgengi allra að námi sé tryggt eins og ástandið er nú. Því leggja flutningsmenn tillögunnar til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að bæta stöðu námsmanna. Meðal aðgerða sem skoða skal sérstaklega er hækkun á grunnframfærslu LÍN, afnám skattlagningar á húsaleigubætur, að húsaleigubætur skerði ekki námslán og barnabætur og hámark húsaleigubóta verði hækkað. Á meðan skattlagning á húsaleigubætur hefur ekki verið afnumin verður því jafnframt beint til stjórnar LÍN að bæturnar skerði ekki námslánin. Einnig þarf að tryggja að byggingaraðili félagslegs húsnæðis á borð við Félagsstofnun stúdenta þurfi ekki að fjármagna uppbyggingu félagslegs húsnæðis fyrir námsmenn með lántökum á almennum markaði.

Brýnt er að bæta stöðu námsmanna verulega. Mikið óréttlæti felst í því að skattleggja húsaleigubætur á meðan vaxtabætur eru skattfrjálsar og hefur Jóhanna Sigurðardóttir hv. þm. Samfylkingarinnar lagt fram frv. til laga um tekju- og eignarskatt þar sem skattlagning húsaleigubóta er afnumin.

Ástandið á húsaleigumarkaðnum snertir fjölmarga námsmenn, hvort heldur er skortur á félagslegu húsnæði, húsnæðisekla á almennum leigumarkaði eða skattlagning húsaleigubóta og skerðing þeirra á námslánum og barnabótum. Margir námsmenn líða fyrir það að húsaleigubætur skerði námslán og barnabætur og gerir þeim erfitt fyrir að stunda nám.

Flutningsmenn tillögunnar telja afar brýnt að breyta þessu þar sem núverandi fyrirkomulag bitnar mjög harkalega á námsmönnum utan af landi eins og áður er getið um.

Herra forseti. Íbúðir á stúdentagörðum og námsmannaíbúðir er ákjósanlegur kostur fyrir námsmenn, enda er um ódýrt húsnæði að ræða í nágrenni við háskólann. Því er mikilvægt að Garðahverfið svokallaða við Háskóla Íslands haldi áfram að vaxa, ekki síst í ljósi mjög erfiðs ástands á almennum leigumarkaði sem gerir það að verkum að námsmenn og þeir efnaminni og námsmenn utan af landi hrekjast frá námi. Einnig er mikill sparnaður fólginn í því fyrir námsmenn og samfélagið allt að námsmenn búi í nágrenni við skóla sína og þurfi ekki að nota ökutæki til að ferja sig í skólann.

Herra forseti. Í ágúst 1998 skipaði félmrh. nefnd til að vinna að úttekt á leigumarkaði og kanna þörf fyrir félagslegar leiguíbúðir. Nefndin skilaði af sér snemma á þessu ári og skýrslan er nú til athugunar innan ráðuneytisins og í viðræðum ríkis og sveitarfélaga. Í skýrslunni er m.a. lagt til að hætta beri vaxtaniðurgreiðslu til byggingaraðila en í staðinn komi stofnstyrkir til þessara aðila, hækkun húsaleigubóta eða hugsanlega hvort tveggja.

Hinn neikvæði hluti þessara tillagna hefur þegar komið fram þar eð vextirnir hafa hækkað og áhrifa þess er þegar farið að gæta hjá Félagsstofnun stúdenta. Hins vegar hefur því fjármagni sem hið opinbera sparar með þessu ekki verið komið aftur til byggingaraðila félagslegs húsnæðis þar sem enn er verið að ræða þessi mál. Þetta kemur byggingaraðilum húsnæðisins auðvitað illa, enda er þeim með þessu gert mjög erfitt fyrir á meðan þörfin fyrir húsnæði eykst stöðugt.

Flutningsmenn þessarar tillögu telja það aðför að námsmönnum að þurfa að vera á leigumarkaði, að hækka vexti af lánum til leiguíbúða sem árum saman hafa verið 1% og gert mögulega uppbyggingu á námsmannaíbúðum og hóflegri leigu námsmanna. Ljóst er að ef hækka á vextina þá annaðhvort hækkar leigan hjá námsmönnum verulega eða dregur úr uppbyggingu leiguíbúða.

Flutningsmenn tillögunnar leggja því áherslu á að vextir af leiguíbúðum hækki ekki. Verði hins vegar um hækkun að ræða er brýnt að mæta henni með sambærilegri hækkun á húsaleigubótum og byggingarstyrk til félagasamtaka sem standa að uppbyggingu leiguíbúða. Ástandið var slæmt í fyrra og mörgum nemendum tókst ekki að finna sér fast húsnæði áður en skóli hófst. Allt bendir til að ástandið verði verra í ár. Ljóst er að Alþingi verður að grípa til markvissra aðgerða til að snúa við þessari þróun sem stefnir í óefni.

[18:30]

Aldrei hafa jafnmargir stúdentar sótt um vist á stúdentagörðum og í ár, en alls bárust 835 umsóknir. Aðeins verður mögulegt að úthluta til um 60% þeirra sem sóttu um íbúð. Talið er að helstu ástæður fyrir fjölgun umsókna um vist á Görðum í ár sé lítið framboð og hátt leiguverð á almennum markaði. Leiguverð á stúdentagörðum virðist mun lægra en á almennum markaði og því eru Garðarnir góður kostur fyrir stúdenta. Til að þessi góði kostur dafni áfram er mikilvægt að markviss uppbygging stúdentagarða haldi áfram, en til þess þarf að skapa Félagsstofnun stúdenta skilyrði til að svo megi verða.

Stúdentar hafa oft lýst áhyggjum af því að leiga á stúdentagörðum hækki vegna aukins fjármögnunarkostnaðar. Það er því mikilvægt að eigið fé Félagsstofnunar stúdenta til upp byggingar byggist ekki á lántöku á almennum markaði. Ef Félagsstofnun þarf að leita fjármögnunarleiða með lántöku á almennum markaðsvöxtum mun það óhjákvæmilega leiða til verulegrar hækkunar húsaleigu á stúdentagörðum.

Öflugir stúdentagarðar og uppbygging námsmannaíbúða eru ein af forsendum þess að allir hafi jafnan aðgang að námi. Landsbyggðarfólk, fjölskyldufólk og fólk sem býr við bágan fjárhag á æ erfiðara með að stunda nám vegna hækkandi framfærslukostnaðar.

Flutningsmenn telja brýnt að tekið sé á þessum málum hið fyrsta til að tryggja jafnan að gang allra að námi. Núverandi ástand mismunar fólki eftir efnahag og búsetu og við það verður ekki unað. Framfærslugrunnur námslána er úreltur og endurspeglar ekki raunverulega þörf námsmanna til framfærslu. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að reglulega séu gerðar kannanir á framfærsluþörf námsmanna og námslán taki mið af því. Námslán sem duga til framfærslu námsmanna eru lykilatriði til að tryggja og koma á jafnrétti til náms.

Herra forseti. Samfylkingin hefur sett menntamálin í öndvegi. Samfylkingin vill umbylta íslensku menntakerfi. Ég vil að endingu, með leyfi forseta, vitna til ræðu hv. alþm. og formanns Samfylkingarinnar, Össurar Skarphéðinssonar, frá stofnþingi Samfylkingarinnar sl. vor. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Nær allar kannanir hafa sýnt að við drögumst hratt aftur úr öðrum þjóðum í menntamálum. Þverfaglegu námi, starfsnámi, verknámi og endurmenntun er hér ábótavant. Við sættum okkur aldrei við það að íslenska skólakerfið veiti lakari menntun en gerist meðal fremstu þjóða. Við höfnum því að þrengt sé að starfsmöguleikum og lífskjörum ungs fólks með því að hafa framlög til háskólakennslu miklu lægri en í grannlöndum okkar og innleiða háskólagjöld fyrir meistaranám. Tilfærsla á fé til menntamála verður fyrsta úrlausnarefni ríkisstjórnar okkar.``