Bætt staða námsmanna

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 18:39:31 (1302)

2000-11-02 18:39:31# 126. lþ. 19.16 fundur 189. mál: #A bætt staða námsmanna# þál., Flm. BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[18:39]

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson) (andsvar):

Herra forseti. Það viðhorf sem fram kemur hjá hv. alþm. Pétri H. Blöndal er lýðnum kunnugt og endurspeglar viðhorf Sjálfstfl. til menntamála í landinu. Kommóðuna hef ég skoðað alla frá a til ö, hv. þm. Pétur Blöndal, og það einstaka dæmi sem hann tók af einstæðri móður með tvö börn og að hún hafi sér til framfærslu 206 þús. kr. á mánuði er ákaflega gleðilegt dæmi. Það er ákaflega gleðilegt að málum sé þó það langt fram þokað að einstæð móðir með tvö börn geti framfleytt sjálfri sér og tveimur börnum sínum og auk þess stundað nám. En þetta er einstakt dæmi og það er Pétur sem er að draga þarna eina skúffu út úr kommóðunni og tæta hana í sundur og það er ekki til annars fallið en að undirstrika það að brýnt er að gera vel við námsmenn. Það er enginn of sæll af því að framfleyta sér og tveimur börnum með 206 þús. kr. á mánuði. Það væri sorglegt ef staðan væri sú að talan væri lægri. Viðhorf hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem endurspeglar um leið viðhorf hæstv. ráðherra Björns Bjarnasonar til menntamála í landinu og einkennir þá menntastefnu sem hér hefur verið rekin síðasta áratuginn, er bæði sorglegt og hryggilegt.