Bætt staða námsmanna

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 18:42:54 (1304)

2000-11-02 18:42:54# 126. lþ. 19.16 fundur 189. mál: #A bætt staða námsmanna# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[18:42]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að mjög mikilvægt er að við skoðum alla kommóðuna, eins og hann orðar það, og það er rétt sem má ráða af málflutningi hans að laun eru allt of lág í landinu hjá stórum hópum. Eins og hann nefnir búa margir einstaklingar við launakjör sem duga engan veginn til framfærslu. Hann hefur fundið það út sem eitthvert stórkostlegt hneykslunarefni að einstæð móðir með tvö börn, sem stundar nám við háskólann, hafi til framfærslu fyrir sig og börn sín 206 þús. kr. á mánuði. Það eru ekkert mjög miklir peningar. Það er alveg rétt hjá honum hins vegar að margir fá enn þá minna. Það er þá úrlausnarefni að fá úr því bætt.

Við skulum ekki gleyma því að leiga fyrir íbúðir á almennum leigumarkaði, agnarsmæstu íbúðir, tveggja herbergja íbúðir er um 60 þús. kr. á mánuði. Leiga fyrir þriggja herbergja íbúð er þaðan af meira. Það er áhyggjuefni sem kom fram í máli 1. flm., hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, og ég tek undir það, hver framtíð hins félagslega leigukerfis verður vegna þess að þar er óvissa mikil. Samkvæmt fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar kemur þessi óvissa reyndar fram. Minnt er á það í frv. að samkvæmt húsnæðislögunum hangir það inni í bráðabirgðaákvæði hvernig farið verður með stuðning við félagslegt leiguhúsnæði og fyrir árslok á að verða frá því gengið. Lögin eru orðin tveggja ára gömul og voru gefin tvö ár til þess að finna leiðir til stuðnings við félagslegt íbúðarhúsnæði. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að sá stuðningur kom áður fram í formi lágra vaxta eða lægri vaxta, niðurgreiddra vaxta kallar þingmaðurinn það, sem miðar alla hluti við markaðinn, en það er rétt að félagslega kerfið bar lága vexti, 1% um tíma, fór upp í 2,4% og síðan reyndar yfir 3%.

[18:45]

En í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar kemur fram á bls. 407 eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Loks er 50 millj. kr. fjárveiting á lið 205 Leiguíbúðir til húsaleigubóta eða til stofnkostnaðarstyrkja. Niður fellur af sama lið 100 millj. kr. tímabundin fjárveiting samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða í lögum um húsnæðismál um niðurgreiðslu vaxta til leiguíbúða fram til ársloka 2000.``

Hér er vísað í fyrrnefnt bráðabirgðaákvæði þar sem varið var 100 millj. kr. til stuðnings. Þessar 100 millj. eru samkvæmt þessu komnar niður í 50 millj. og eiga síðan að birtast í nýju formi.

Reyndar skal á það minnt að þegar 1. umr. fór fram um fjárlagafrv. þá risu miklar deilur meðal ráðherra um hvað þetta þýddi. Hæstv. félmrh. benti reyndar á að frá þessu deilumáli hefði ekki verið gengið, það væru ekki komnar endanlegar lyktir í þetta mál.

Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs til þess að taka undir með 1. flm. þáltill., hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, og reyndar einnig til að taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal, a.m.k. í viðleitni minni til að skilja orð hans hér á besta veg, skilja þau þannig að hann hafi áhyggjur af lágum launum í landinu.