Greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 10:32:59 (1310)

2000-11-03 10:32:59# 126. lþ. 20.94 fundur 92#B greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[10:32]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Komið hefur fram í fjölmiðlum að áformað væri að hætta að greiða niður að fullu nokkra lyfjaflokka og voru þar nefnd sem dæmi sykursýkislyf og krabbameinslyf. Hér er um að ræða lyf við lífshættulegum sjúkdómum og alveg ljóst að fjöldi þeirra sem fá slíka sjúkdóma hefur alls ekki efni á að greiða hluta af slíkum lyfjum en kostnaður við þau getur skipt hundruðum þúsunda eins og t.d. við krabbameinslyf.

Þessi frétt hefur vakið mikinn kvíða hjá sjúklingum og hefur Félag sykursjúkra ályktað harðlega gegn slíkum áformum. Ég held að hér hljóti að vera á ferðinni einhver misskilningur sem nauðsynlegt er að hæstv. heilbrrh. leiðrétti og taki af allan vafa um að ekki á að auka hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði enda hefur þar verið nóg að gert á undanförnum missirum. Síðast var það um mitt þetta ár að allt að 37% hækkun varð á algengum lyfjum sem kom mjög illa við sjúklinga.

Í þessari sömu frétt er vísað til þess að líklegast væri að niðurgreiðslum almannatrygginga vegna lyfja yrði breytt að danskri fyrirmynd sem gerir ráð fyrir að þátttaka almannatrygginga í niðurgreiddum lyfjum verði hlutfallslega sú sama. Ég spyr um það: Stendur til að taka upp kerfi þar sem hlutfallslega verður greitt það sama fyrir öll niðurgreidd lyf? Það er ekki bara í þessari tilvitnuðu frétt sem vitnað hefur verið til þess að til stæði að taka upp danska kerfið hér á landi heldur var líka vísað til þess í greinargerð með fjárlagafrv. yfirstandandi árs að áform séu uppi um að taka upp nýtt fyrirkomulag í niðurgreiðslu lyfja að sænskri og danskri fyrirmynd.

Greiðsluþátttaka sjúklinga í Danmörku á öllum dýrari lyfjum er 15% og almannatrygginganna 85% en talið er að þetta fyrirkomulag uppfylli ekki, sem er mikilvægt, það skilyrði að enginn þurfi að hverfa frá lækningameðferð eða lyfjakaupum vegna efnahags. Mér sýnist að verði þetta kerfi tekið upp hér á landi þýði það algjöra stefnubreytingu og verið sé með því að snúa heilbrigðiskerfinu enn frekar frá því sem almenn sátt hefur lengst af ríkt, þ.e. að heilbrigðiskerfið sé opið öllum óháð efnahag. Framkvæmdin á danska kerfinu virðist því fráleit og ég spyr hæstv. ráðherra: Eru uppi áform um að taka upp þetta fyrirkomulag þannig að greiðsluþátttaka almannatrygginga í lyfjum verði hlutfallslega sú sama og þar ekki gert upp á milli sjúkdóma? Samkvæmt því sem fram hefur komið eykst greiðsluþátttaka almannatrygginga eftir því sem fólk notar lyfið meira og upplýsingar um lyfjanotkun hvers sjúklings er geymd í miðlægum gagnagrunni í Danmörku sem hlýtur vægast sagt að vera mjög umdeilt. En það er gert til þess að geta haft eftirlit með þessum kostnaði t.d.

Ég spyr líka ráðherra hvort þess séu dæmi að lágtekjufólk eða lífeyrisþegar hafi ekki getað notið nauðsynlegrar læknis- eða lyfjameðferðar sökum fátæktar og hvort ráðherrann muni tryggja að allir hafi jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu óháð efnahag. Ég tel ástæðu til þess að fram fari úttekt á því hvort brögð séu að því, eins og komið hefur reyndar fram opinberlega, að láglaunafólk eigi ekki fyrir nauðsynlegum lyfjum eða læknisþjónustu og hvort ráðherrann geti tekið undir það og sé þá tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að slík úttekt fari fram, hvort það geti verið í velferðarsamfélaginu Íslandi að svo sé komið að það séu brögð að því að fólki geti ekki leitað sér læknishjálpar eða leyst út sín lyf. Ég held að við þurfum að fá fram það sanna í þessu máli og því er hæstv. ráðherra sérstaklega spurður að því.

Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir 1 milljarðs kr. sparnaði. Hvað má ætla að hæstv. ráðherra nái miklu fram af þeim sparnaði á þessu ári? Um það spyr ég og einnig hvort að með sparnaði í lyfjakostnaði þessa árs verði enn frekar aukin þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði frá því sem gert var í sumar og hefur komið mjög illa við marga eins og láglaunafólk og lífeyrisþega. Eftir því sem ég best veit hefur ráðherrann ekki enn náð fram þeim sparnaði. Síðan eru áform uppi um 370 millj. kr. sparnað í fjárlagafrv. næsta árs. Eru þar uppi einhver áform um frekari greiðsluþátttöku sjúklinga til að ná fram þeim sparnaði?

Grundarvallarspurningin sem varpað er fram til ráðherra í þessari umræðu er því: Má gera ráð fyrir aukinni þátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði frá því sem nú er á þessu eða næsta ári?