Greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 10:47:19 (1314)

2000-11-03 10:47:19# 126. lþ. 20.94 fundur 92#B greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði# (umræður utan dagskrár), PBj
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[10:47]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Lyf eru mun dýrari hér en annars staðar á Norðurlöndum og lyfjakostnaður almennings er hærri. Þetta stafar ekki af því að við neytum meiri lyfja en aðrar þjóðir. Þvert á móti erum við lægstir í Evrópu ásamt Norðmönnum hvað snertir lyfjanotkun í heildina.

Með reglugerð 15. júní sl. var ætlunin að spara ríkissjóði 700--800 millj. í lyfjakostnaði. Þessi sparnaður er tekinn beint úr vasa sjúklinga og aldraðra og kostnaður þeirra hefur aukist hvað sem sagt er um heildina. Ekki verður séð að gengið hafi verið úr skugga um að þessar álögur skiptist á réttlátan hátt milli sjúklingaflokka. Hlutdeild aldraðra í lyfjakostnaði hefur aukist á bilinu 14--37,5% eftir lyfjaflokkum samkvæmt könnun Félags eldri borgara í Reykjavík. Hlutdeild hjartasjúklinga í lyfjakostnaði hefur hækkað mun meira í mörgum tilvikum en eitthvað minna hjá ýmsum öðrum.

Hafin er vinna við ítarlega könnun á vegum sjúklingafélaga, samtökum aldraðra og ýmissa félagasamtaka á kostnaðarhlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði og þeim breytingum sem hafa orðið á henni á undanförnum árum. Ríkisvaldið getur ekki beint sparnaðarhugmyndum sínum að þessum hópum, þ.e. sjúklingum og öldruðum umfram aðra. Það er ekki þar sem breiðu bökin er að finna í þjóðfélaginu. Þótt þessi hópur sé alla jafnan hljóður og hógvær þá má að lokum brýna svo deigt járn að bíti. Það virðist vera komið að þeim mörkum núna.