Greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 10:49:04 (1315)

2000-11-03 10:49:04# 126. lþ. 20.94 fundur 92#B greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[10:49]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Árið 1994 voru gerðar þær breytingar á lögum að innleidd var samkeppni í lyfjaverslun. Hæstv. heilbrrh. var andvígur þeirri breytingu og gerði allt sem hún gat til að tefja fyrir því að hún gæti gengið í gegn. Þessi samkeppni leiddi samt til þess að verðstríð varð á milli lyfjabúða um hlut sjúklinga þannig að lyfjaverslanir lækkuðu hlut sjúklinga. Þetta hefur hæstv. heilbrrh. notað a.m.k. fimm sinnum til þess að auka hlut sjúklinganna. Í skjóli samkeppninnar hefur því hlutur sjúklinga verið aukinn. Það hefur leitt til þess, eins og hér hefur komið fram, að hlutur bæði ellilífeyrisþega og hjartasjúklina í lyfjakostnaði hefur aukist.

Gott og vel. Það sem hins vegar hefur verið rauði þráðurinn í gegnum allar þær aðgerðir sem gripið var til á erfiðleikatímum en ekki á blómaskeiði eins og núna var að verja hag þeirra sem væru krónískt sjúkir. Nú hafa komið upp, vonandi af misskilningi, áhyggjur um það að til stæði að breyta þessu, til stæði að auka hlut þeirra sem bæru langvinna sjúkdóma. Hæstv. ráðherra getur ekki sagt að hún hafi ekki á því skoðun, að hún sé að bíða eftir tillögum Tryggingastofnunar ríkisins um hvernig eigi að framkvæma hlutina. Hún verður að leggja línurnar sjálf. Ég skora á hæstv. ráðherra að taka af öll tvímæli um það að í þeim breytingum sem verið er að vinna að standi ekki til að gera þá grundvallarbreytingu í málefnum sjúklinga að láta þá sem langveikir eru greiða hluta af lyfjakostnaði sínum. Ég skora á hæstv. heilbrrh. að taka af öll tvímæli um þetta og þá ekki aðeins öll tvímæli um að ekki standi til að gera þá breytingu að langveikir sjúklingar þurfi að greiða hluta af lyfjunum við sjúkdómi sínum, heldur einnig ef á að fara að láta þá greiða lyf sem þeir þurfa á að halda við ýmsum hliðarverkunum þeirra sjúkdóma sem þeir hafa.