Greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 11:01:27 (1321)

2000-11-03 11:01:27# 126. lþ. 20.94 fundur 92#B greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[11:01]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram þyrfti náttúrlega að taka lengri tíma en við höfum núna. Við erum að tala um danskt kerfi sem jafnaðarmenn í Danmörku hafa skapað. Ég trúi ekki að menn haldi að það sé afskaplega óheiðarlegt kerfi gagnvart sjúklingum, sérstaklega ekki þeir sem tala fyrir hönd jafnaðarmanna nema þeir hafi skipt um skoðun. En íslenska kerfið er ekki eins og þess vegna vil ég aðlaga það danska að íslenska kerfinu. Íslendingar taka t.d. miklu fyrr en Skandinavar dýr og betri lyf inn til landsins, sem betur fer. En við höfum líka endurgreiðslureglugerðir og höfum gætt þess að greiða þeim sem eru tekjulágir til baka og það er mjög mikilvægt. Það er mjög mikilvægt þegar menn tala um lyfjahækkanir að þeir séu með það á hreinu um hvað er verið að tala.

Hér er til að mynda talað um hjartalyf. Talað er um að hjartalyf hafi hækkað upp í 270%. Við skulum sjá hvað það þýðir. Til að mynda fyrir ellilífeyrisþega eða öryrkja þýðir það 200 kr. á þriggja mánaða skammt, sem sagt um 80 kr. á mánuði. Það er hækkunin sem um er að ræða. En varðandi danska kerfið þá byggir það á því að krónískir, langveikir sjúklingar borgi tiltölulega minna en þeir sem eru sjaldan veikir og þurfa á litlum lyfjum að halda borgi tiltölulega meira. Ég vona að við getum verið sammála um þetta og tölurnar eru alveg skýrar varðandi lyfjavísitölu, að fólk greiðir minna núna fyrir lyfin sín en það gerði áður og ég bið þingmenn að kynna sér endurgreiðslureglugerðirnar. Það verður alveg eins með nýja kerfið að það verður að bindast endurgreiðslureglugerð þannig að við náum til fólksins og við séum að segja og gera það sem við viljum. Það er að allir hafi jafnan aðgang að íslensku heilbrigðiskerfi. Það er númer eitt, tvö og þrjú.