Námsmatsstofnun

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 11:04:18 (1322)

2000-11-03 11:04:18# 126. lþ. 20.10 fundur 176. mál: #A Námsmatsstofnun# (heildarlög) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[11:04]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt frv. til laga um Námsmatsstofnun. Með lagafrv. er lagt til að heiti og hlutverki Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála verði breytt og með nýjum lögum breytist hún í Námsmatsstofnun sem annist hluta þeirra verkefna sem hafa verið unnin hingað til á vegum Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála samkvæmt þeim lögum sem eru nú í gildi um stofnunina frá 1993.

Í frv. er lagt er til að lögbundið hlutverk Námsmatsstofnunar verði að annast prófagerð og prófaframkvæmd og rannsóknir tengdar námsmati, þar með taldar samanburðarrannsóknir við skólastarf í öðrum löndum. Ekki er gert ráð fyrir að stofnunin annist aðrar rannsóknir innan lands á sviði uppeldis- og menntamála en lúta að námsmatsrannsóknum.

Undanfarin ár hafa átt sér stað veigamiklar breytingar á löggjöf um menntamál. Sett hefur verið ný heildarlöggjöf um háskóla og innan Kennaraháskóla Íslands hefur menntun grunnskólakennara, leikskólakennara, íþróttakennara og þroskaþjálfa verið efld og aukin áhersla er lögð á meistaranám, rannsóknir og þjónustu við skólakerfið.

Síðan Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála tók til starfa hefur auk þess verið stofnað til kennaramenntunar og rannsókna á því sviði við Háskólann á Akureyri og rannsóknastarfsemi í uppeldis- og kennslufræðum hefur jafnframt aukist í Háskóla Íslands, einkum á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Við alla helstu háskóla landsins starfa þannig rannsóknastofnanir sem sinna m.a. rannsóknum á sviði uppeldis- og menntamála og er því að mati menntmrn. óþarfi að á vegum ríkisins sé rekin sérstök rannsóknastofnun á þessu sviði eins og nú er gert með Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála.

Þá vil ég láta þess getið, herra forseti, að í lögum um framhaldsskóla er gert ráð fyrir að lokapróf í framhaldsskólum verði samræmd í tilteknum greinum og er miðað við að þau verði lögð fyrir í fyrsta skipti árið 2003. Í núgildandi lögum um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála er ekki veitt heimild fyrir stofnunina til að sinna samræmdum prófum í öðrum skólum en grunnskólum en með þessu frv. er lagt til að stofnunin annist framkvæmd samræmdra prófa á grunn- og framhaldsskólastigi og nauðsynlegt er með skýrum lagaákvæðum að heimila stofnuninni að sinna þessu mikilvæga hlutverki. Óhjákvæmlegt er að taka mið af þessum breytingum á skólakerfi okkar við lagasetningu um Námsmatsstofnun og þess vegna er þetta frv. lagt fram og gerð breyting á gildandi lögum um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála.

Við gerð frv. er einnig stuðst við tillögur sem komu frá stýrihópi sem ég skipaði um mat á starfsemi Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála og í greinargerð með frv. er að finna samantekt á tillögum stýrihópsins. Þar er m.a. lagt til að sett verði ný lög um stofnunina sem taki mið af nýjum viðhorfum í stjórnsýslu og breyttu hlutverki stofnunarinnar innan nýrra laga um grunnskóla og framhaldsskóla og það beri að treysta sjálfstæði stofnunarinnar og skipa henni stjórn. Einnig er tekið á stjórnarháttum stofnunarinnar í þessu frv. og þeim breytt frá því sem nú er. Ég tel því að tekið sé tillit til helstu ábendinga í áliti stýrihópsins í frv. og legg til að það verði tekið til meðferðar og því vísað að lokinni umræðunni til 2. umr. og hv. menntmn.