Blindrabókasafn Íslands

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 11:31:52 (1330)

2000-11-03 11:31:52# 126. lþ. 20.11 fundur 177. mál: #A Blindrabókasafn Íslands# (verkefni og stjórn) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[11:31]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Blindrabókasafn Íslands er afar merk stofnun og er að vinna mjög þarft og gott starf. Þetta frv. til laga um breytingu á þeim lögum sem nú gilda um Blindrabókasafnið er þarft og þessi breyting eðlileg. Það er aðeins eitt sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í og það varðar mögulegan kostnaðarauka af slíkri breytingu. Það kemur fram í fylgiskjali með frv. í umsögn frá fjmrn., fjárlagaskrifstofu, að ekki sé gert ráð fyrir kostnaðarauka af frv. nema sem nemur kostnaði við forstöðumann, þ.e. 4 millj. kr. Það er sem sagt lagt til samkvæmt frv. að forstöðumaður komi ekki úr hópi þeirra deildastjóra sem um ræðir og þess vegna megi ætla að það auki kostnað safnsins um 4 millj. kr. á ári. En ekki er gert ráð fyrir neinum kostnaðarauka sem kæmi af breyttri lagaskyldu stofnunarinnar varðandi námsefni fyrir grunnskólanema.

Ég skil þetta ekki alveg, herra forseti, og væri þakklát hæstv. menntmrh. fyrir að skýra þetta atriði örlítið nánar.