Leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 11:38:56 (1334)

2000-11-03 11:38:56# 126. lþ. 20.12 fundur 175. mál: #A leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis# frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[11:38]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis sem er 175. mál þingsins á þskj. 182.

Með frv. þessu er lagt til að lögfestar verði reglur sem hafa þann tilgang að skýra réttarstöðu þeirra sem sækja um leyfi til slíkrar starfsemi á landgrunni Íslands. Rétt er í upphafi að taka fram að með hugtakinu kolvetni er átt við jarðolíu, jarðgas eða annars konar kolvetni sem er til staðar í jarðlögum undir hafsbotni frá náttúrunnar hendi og nýtanlegt er í loftkenndu eða fljótandi formi.

Jarðvísindalegar rannsóknir í Norður-Atlantshafi og olíuleit á landgrunni nágrannaríkja okkar benda til þess að verðmæt olíuefni kunni að leynast á landgrunni Íslands. Helstu svæðin sem talin eru geta komið til greina í þessu sambandi eru Jan Mayen-hryggurinn, Hatton-Rockall svæðið og setlagasvæði undan ströndum Norðurlands. Engir tæknilegir þættir virðast geta komið í veg fyrir olíuvinnslu á þessum svæðum ef slíkar auðlindir finnast í nægjanlegu magni.

Erlend olíufyrirtæki hafa sýnt áhuga á olíuleit á landgrunni Íslands. Viðræður stjórnvalda við aðila tengda olíuleit hafa hins vegar leitt í ljós að forsenda þess að erlend fyrirtæki fáist til þess að fjármagna leit að olíu og gasi á landgrunni Íslands er að hér verði sett sérstök lög um þessa starfsemi. Slík löggjöf er til staðar í öllum nágrannaríkjum okkar. Þó skal tekið fram að á grundvelli laga nr. 73/1990, um eignarrétt íslenskra ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, er iðnrh. heimilt að veita leyfi til leitar og hagnýtingar á efnum á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga. Þau lög eru þó mjög fábrotin, einungis sjö greinar og taka ekki á mikilvægum atriðum sem varða réttarstöðu handhafaleyfis til leitar, rannsókna eða vinnslu auðlinda hafsbotnsins. Horfa því ákvæði þessa frv. mjög í þá átt að skýra réttarstöðu þeirra sem sækja um leyfi til slíkrar starfsemi á landgrunni Íslands.

Meginmarkmið frv. er að bæta úr brýnni þörf á lagaramma á þessu sviði. Við samningu frv. hefur verið höfð hliðsjón af norrænni löggjöf sem gildir um hliðstæð efni. Í megindráttum er löggjöf þeirra ríkja mjög svipuð en sammerkt með þessum lögum er að þau leggja til grundvallar að sérleyfi séu veitt til rannsókna og vinnslu kolvetnis. Þá er nauðsynlegt vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu að samræma ákvæði frv. löggjöf Evrópusambandsins. Í EES-rétti er miðað við að aðildarríkin hafi yfirráðarétt yfir kolvetnisauðlindum á sínu yfirráðasvæði, þar á meðal rétt til þess að ákveða á hvaða svæðum kolvetnisstarfsemi fer fram.

Í frv. er miðað við að rannsóknar- og vinnsluleyfi feli í sér einkarétt leyfishafa til rannsókna og vinnslu kolvetnis á tilteknum svæðum. Hentugt er að miða við að veita slíkt sérleyfi með sama hætti og gert er í nágrannaríkjunum. Í fyrsta lagi er til þess að líta að öll ríki við Norður-Atlantshaf styðjast á einn eða annan hátt við sérleyfisveitingar og hefur það fyrirkomulag reynst vel.

Í öðru lagi má benda á að á Íslandi skortir sérþekkingu á leit, rannsóknum og vinnslu á kolvetni, bæði hjá einkaaðilum og hinu opinbera. Olíufyrirtæki búa yfir þekkingu og reynslu á slíkri starfsemi og hafa fjárhagslegt bolmagn til að stunda olíu- og gasleit. Ef fyrirtæki eru reiðubúin að kosta slíka leit er eðlilegt að íslensk stjórnvöld komi til móts við þau með því að búa þeim góð starfsskilyrði en tryggi jafnframt að starfsemin samrýmist efnahagslegum markmiðum og nútímakröfum um umhverfisvernd og starfsöryggi.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt að það fyrirkomulag sem valið er tryggi að erlend olíufyrirtæki telji það raunhæfan kost að hefja kolvetnisleit á landgrunni Íslands.

Í fjórða lagi fela sérleyfisveitingar í sér að íslenska ríkið heldur eftir sem áður hefðbundnum eignarráðum yfir kolvetnisauðlindum á landgrunninu og getur tryggt að greitt verði hæfilegt endurgjald fyrir afnotin.

Með lögum nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, var lögfestur eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki.

Í frv. sem hér er lagt fram er miðað við að íslenska ríkið hafi hefðbundinn eignarrétt yfir kolvetnisauðlindum á landgrunninu og geti tryggt að greitt verði hæfilegt endurgjald fyrir afnotin. Frv. er byggt upp sem rammalöggjöf um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Ef síðar kemur til þess að ráðist verði í þær framkvæmdir er lagt til að settar verði ítarlegar reglugerðir um einstaka þætti framkvæmdanna í samráði við sérfræðinga. Einnig er leitar-, rannsóknar- og vinnsluleyfið mikilvægur þáttur í frv. Þar er gert ráð fyrir að kveðið verði eins nákvæmlega og hægt er á um réttindi og skyldur leyfishafa í leitar-, rannsóknar- og vinnsluleyfi. Í rannsóknar- og vinnsluleyfi er hægt að taka tillit til þarfa leyfishafans, m.a. með tilliti til þeirrar áhættu sem hann tekur og möguleika á að kolvetni finnist. Í heildina tekið má þó segja að frv. sé byggt upp með svipuðu sniði og önnur löggjöf hér á landi sem varðar auðlindir.

[11:45]

Herra forseti. Ég mun nú gera grein fyrir efni frv. sem er 33 greinar og skiptist í átta kafla.

Í I. kafla frumvarpsins eru ákvæði um gildissvið og skilgreiningar, en lögin gilda í landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunni Íslands utan netlaga, en innan netlaga gilda lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Í II. kafla frumvarpsins er ákvæði um eignarrétt íslenska ríkisins að kolvetni í landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunni Íslands. Ákvæði kaflans er í samræmi við gildandi rétt og sett til áréttingar reglu sem fram kemur í lögum nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins.

Í III. kafla er fjallað um umsókn um leyfi til kolvetnisleitar, leyfið sjálft og tímalengd þess.

Reglur IV. kafla frumvarpsins geyma ákvæði um rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Fjallað er um leyfi og skilyrði leyfisveitingar, auglýsingu, efni leyfisins og skyldur leyfishafa, tímalengd o.fl.

Á það skal bent að samkvæmt frv. er miðað við að leyfishafar fá einkarétt til rannsókna og vinnslu á tilteknum svæðum, en eins og áður segir byggir löggjöf í öllum nágrannaríkjum Íslands á sérleyfisfyrirkomulagi.

Í V. kafla er fjallað um vinnuumhverfi og öryggisráðstafanir við kolvetnisstarfsemi. Í VI. kafla eru fyrirmæli um eftirlit með leitar-, rannsókna- og vinnslusvæðum, upplýsingagjöf, meðferð upplýsinga o.fl. Miðað er við að Orkustofnun hafi stjórnsýsluverkefnum að gegna við framkvæmd laganna en ákvæðin eiga sér að nokkru fyrirmynd í lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Í VII. kafla eru hefðbundin eignarnáms- og bótaákvæði, þ.e. almenn eignarnámsheimild til handa ráðherra og ákvæði um skaðabótaábyrgð. Í VIII. kafla eru ýmis ákvæði, þ.e. meginregla um bann við framsali á leyfi samkvæmt lögunum, reglugerðarheimild til handa iðnaðarráðherra, refsiákvæði og gildistökuákvæði.

Herra forseti. Það verður að leggja áherslu á mikilvægi þess að frv. til laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis nái fram að ganga. Vegna umsókna sem fram hafa komið og áður hefur verið lýst er afar mikilvægt að frv. nái sem fyrst fram að ganga.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til iðnn. og 2. umr.