Leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 12:08:46 (1336)

2000-11-03 12:08:46# 126. lþ. 20.12 fundur 175. mál: #A leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis# frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[12:08]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég fagna frv. því sem hér er lagt fram af hæstv. iðnrh. Það mun hafa verið líklega 1996 sem ég lagði fyrst fram þáltill. um þetta mál og má kannski segja að þó að einhverjum finnist hraði ekki hafa verið mikill á þessu þá er samt sem áður hér mikill áfangi á leið til þess sem sú þáltill. fól í sér, þ.e. að styrkja og efla áhuga erlendra aðila til að koma að landgrunni Íslands og leita að olíu.

Segja má að á fjárlögum fyrir árið 2001 sé gert ráð fyrir 15 millj. til þess að stunda botnrannsóknir hér við Ísland en þegar litið er aftur til áranna 1992, 1993 og 1994 voru veittar 4 millj. til þeirrar starfsemi, 1995, 1996 og 1997 voru veittar um 2 millj. Hér er því nokkur áfangi. Hins vegar er ég enn sannfærður um að það hefði átt að vera búið að vinna heimavinnuna betur til að efla enn frekar áhuga erlendra aðila til að koma hér og leita að olíu eða gasi. Eftir upplýsingum sem komu nýlega fram í fréttum frá iðnrn. er einn erlendur aðili sem hefur áhuga á að hefja leit við Ísland og er það vel en vissulega hefði það þó verið ánægjulegra ef fleiri hefðu haft áhuga.

Ég veit að nokkuð margir eru með böggum hildar yfir því að nokkurt vit sé í þessari lagasetningu og vit í málflutningi alþingismanna yfir höfuð að vera að tala um olíu við Ísland. En ef litið er aðeins til fortíðar, t.d. til Norðmanna, þá segir í ágætri skýrslu frá Orkustofnun um frásögn kynnisferðar til Óslóar í nóvember 1998 en þrír aðilar frá Orkustofnun fóru þangað. Í hluta skýrslunnar segir svo, með leyfi forseta:

,,Í lok sjötta áratugarins höfðu fáir trú á því að olíulindir fyndust á landgrunni Noregs. Gasfundur í Groeningen í Hollandi árið 1959 varð til þess að jarðfræðingar öðluðust nýjan skilning á olíulíkum í Norðursjó. Haustið 1962 sótti olíufélagið Phillips um leyfi til olíuleitar á norska landgrunninu. Önnur olíufélög fylgdu þar fast á eftir. Norðmenn lýstu kröfum sínum til yfirráða yfir auðlindum á landgrunni Noregs 1963 og ný lög festu eignarrétt ríkisins á auðlindum þar. Til leitar og vinnslu þurfti leyfi konungs. Olíufélög fengu það ár leyfi til undirbúningsrannsókna, þar með endurvarpsmælinga á setlögum, en ekki til leitarborana.``

Það er nokkuð merkilegt og sagt hefur verið að Norðmenn hafi alveg fram að þeim tíma verið algjörlega fráhverfir því að í Norðursjó gæti verið um nokkra olíu að ræða, en eins og tilvitnaður texti segir til um kom nú heldur betur annað í ljós og nú skiptir þetta orðið milljörðum sem Norðmenn eru að fá vegna olíuframleiðslu sinnar, milljörðum í norskum krónum talið.

Ég ætla þá aðeins að víkja að frv. til laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Þegar greinargerðin er skoðuð með einstökum lagagreinum er ýmislegt sem forvitnilegt er að fá frekari skýringar á. Ég vil þó fyrst vitna í bls. 9 í kafla II, Þörfin á löggjöf um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ekki er til sérstök löggjöf á Íslandi er tekur til leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis. Þörf á slíkri löggjöf er þó fyrir hendi, enda sýnir reynslan að erlend olíufyrirtæki veigra sér við að hefja leit, rannsóknir og vinnslu á kolvetni nema til sé slík löggjöf.``

Það velkist óneitanlega fyrir mér hvað dregist hefur lengi að fara í þetta ákvæði. Ég minnist þess, það hefur líklega verið í kringum 1972 eða 1973, að þá voru samkvæmt upplýsingum sem voru gefnar frá iðnrn. einir 20 erlendir aðilar sem höfðu hug á að hefja hér olíuleit við Ísland. Hvers vegna var þá ekki gripið til þess að fara frekar ofan í málið?

Hér segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Meginmarkmið frumvarpsins er að koma til móts við þessa þörf með því að setja rammalöggjöf um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Við samningu frumvarpsins þurfti að taka afstöðu til þess hvernig standa ætti að veitingu leyfa til leitar, rannsóknar og vinnslu kolvetnis. Löggjöf nágrannaríkjanna er að ýmsu leyti heppileg fyrirmynd eins og rakið er nánar hér á eftir. Þó verður að gera þann fyrirvara að aðstæður í þessum ríkjum eru að ýmsu leyti frábrugðnar aðstæðum á Íslandi. Þannig eru líkur á því að á landgrunni Íslands finnist kolvetni í nægjanlegu magni til að vinnsla þess sé efnahagslega hagkvæm minni en í nágrannaríkjunum. Þess vegna er ekki ástæða til að hafa eins ítarlega löggjöf og þar er að finna.``

[12:15]

Hæstv. iðnrh. Í þessum skrifaða texta eru menn með böggum hildar yfir því að leggja þetta frv. fram. Hafa menn ótrú á verkinu? Ef svo er þá held ég að menn ættu ekkert að vera að fara af stað með þessa löggjöf. Ef iðnrn. hefur enga trú á því að þetta sé verk sem eigi að vinna þá held ég að menn ættu að athuga sinn gang. Ekki þar fyrir að ég tel það alveg nauðsynlegt og kannski er textinn góður þegar grannt er skoðað. Ég tel að full ástæða sé til þess og við megum vara okkur á því að setja ekki slíka löggjöf um þessa starfsemi að enginn erlendur aðili eða erlent olíufélag hafi nokkurn áhuga á að koma nálægt leit við Ísland. Það er hin hliðin á málinu sem við þurfum að gæta okkur á. Mér finnst hins vegar textinn alls ekki til þess fallinn að vekja bjartsýni meðal þjóðarinnar og það er kannski heldur engin ástæða. Mér finnst úrtölurnar í þessum skrifaða texta vera heldur miklar. En allt um það. Tilgangurinn er góður og ég vona að menn horfi fram hjá þessari setningu.

Ég ætla ekki að hafa langa tölu um frv. en það voru þó nokkur atriði sem ég vildi aðeins koma inn á. Í athugasemdum um 20. gr. segir:

,,Samkvæmt 1. mgr. er ráðherra veitt heimild til þess að krefjast þess að tvær eða fleiri kolvetnisauðlindir verði samnýttar af hagkvæmnisástæðum. Þetta ákvæði er til fyllingar reglu 19. gr. sem kveður á um skiptingu kolvetnisauðlindar af landfræðilegum ástæðum.

Samkvæmt 2. mgr. getur ráðherra skyldað leyfishafa til að veita öðrum leyfishöfum aðgang að búnaði í því skyni að samnýta kolvetnisauðlindir. Verður að sjálfsögðu að miða við að þessi ráðstöfun valdi leyfishafa ekki verulegum óþægindum eða raski.``

Fyrir leikmann virkar þessi texti sem algert gerræðisvald ráðherra á starfsemi sem væri komin í fullan gang og bjart liti út og þá væri ráðherra heimilt að hleypa þar öðrum að. Ekki það að ég hafi þekkingu á málinu en þessi skrifaði texti kemur þó nokkuð spánskt fyrir sjónir þegar þess er gætt að við erum ýmist að veita aðilum ákveðinn lagaramma til þess að starfa innan í nokkru frjálsræði, þá finnst mér þó að hér sé lagaramminn nokkuð þrengdur að þeim sem vel hefur árað og vel hefur gengið í þá veru að hægt væri að opna með sérstökum hætti öðrum aðilum aðgang að þar sem jákvæð niðurstaða hefur fengist.

Í 21. gr. er talað um það eins og segir í greinargerðinni. ,,Frumvarpsgreinin felur fyrst og fremst í sér áréttingu á þeirri lagaskyldu sem felst í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þannig er ljóst að leyfi eða samþykki iðnaðarráðherra fyrir starfsemi samkvæmt lögunum er ávallt háð því að fram hafi farið mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þar að lútandi þegar við á.`` Ekki veit ég og man ekki texta allan hvað áhrærir umhverfismatið en skyldu þau lög taka mið af þessari starfsemi eða eru þau lög kannski fyrst og fremst í þá veru að horft er til lands og grunnlína umhverfis landið? Ég vildi aðeins benda á þetta og vænti þess að hv. iðnn. skoði þetta mál þannig að við lendum ekki í einhverri flækju þar sem kannski stangast verulega á texti um umhverfismat sem er ekki ætlaður eða hugsaður vegna starfsemi sem gæti verið jafnvel utan landhelginnar en þó innan efnahagslögsögunnar.

Í 23. gr. komu fram reglur um sérstök öryggisbelti umhverfis hafstöðvar. Ákvæðið veitir iðnrh. heimild til að setja nánari reglur um þessi svæði í samræmi við þær alþjóðavenjur sem eru í gildi. Enn fremur getur ráðherra sett nánari reglur um takmarkanir á rétti skipa til að festa akkeri og stunda veiðar í nágrenni við leiðslubúnað.

Herra forseti. Ég hef oft og tíðum deilt á það hve mörg ráðuneyti koma að ýmsum þáttum þessa þjóðlífs og er það stundum mikið vandamál. Til hvaða ráðuneytis á að leita og eru þá jafnvel mörg ráðuneyti sem koma með einum og öðrum hætti að og t.d. því sem lýtur að sjávarútveginum. Það er dómsmrn., sjútvrn., samgrn. og umhvrn. Hér er það iðnrn. sem á að fara að setja takmarkandi siglingaleiðir fyrir skip. Það hlýtur að vanta í þennan texta að hér sé auðvitað ætlað að iðnrn. geri þetta í samstarfi við Landhelgisgæsluna eða dómsmrn. Það hlýtur að vera.

Síðan segir hér: ,,Í lokamálslið 23. gr. kemur fram sú regla að ráðherra geti sett reglur sem takmarka rétt skipa til að festa akkeri og stunda veiðar í nágrenni við leiðslubúnað. Hér er gengið skemur en í fyrri hluta ákvæðisins þar sem í þjóðarétti er almennt litið svo á að strandríki hafi ekki eins ríkar heimildir til þess að koma á fót öryggisbeltum í nágrenni við leiðslubúnað. Hins vegar verður að líta svo á að heimilt sé að setja reglur af öryggisástæðum.`` Þetta kemur alveg heim og saman við það sem við stöndum frammi fyrir varðandi afmarkaðar siglingaleiðir skipa sem sigla með olíu eða hættulegan varning. Það mál er í vinnslu hjá samgrn. og mun væntanlega eins og samgrh. skýrði frá fyrir nokkrum dögum þegar ég gerði fyrirspurn til hæstv. samgrh. um hvað liði störfum þeirrar nefndar sem sett var á laggirnar í framhaldi af þáltill. sem ég flutti um sama efni. Mér sýnist því að hér séu nokkur atriði sem lúta að öryggisgæslu sjófarenda vegna nálægðar við hugsanlega olíuborpalla eða olíuleiðslur að þar þurfi aðeins að horfa yfir völlinn í víðara samhengi en hér er sett fram. Er það ekkert nýtt í sjálfu sér því að við rekumst víða á það eins og ég gat gat um áðan, þegar horft er yfir lagasetningar hinna ýmsu ráðuneyta, þar er víðáttumikil flóra sem er erfitt fyrir hinn almenna mann að fóta sig á vegna þess að þetta er ekkert allt á einni hendi eins ráðuneytis.

Í 27. gr. kemur fram að iðnrn. sé heimilt að taka eignarnámi fasteignir til þess að kolvetnisstarfsemi geti farið fram og bætur til handa eignarnámsþola verða ákveðnar með eignarnámsmati samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Þetta er ákaflega hvimleitt. Ég verð að segja að enn á því herrans ári 2000 er verið að setja inn frekari reglugerðir eða lög sem lúta að því að beita eignarnámi vegna ýmissar starfsemi.

Í 30. gr. er svo talað um að óeðlilegt þyki að leyfi, sem er hér til umfjöllunar, geti gengið kaupum og sölum eða að þau séu hægt að setja til tryggingar fjárskuldbindingum. Það er eðlilegt. Tilgangurinn með því að áskilja leyfi ráðherra til að framselja leyfi er sá að fyrirtækið sem fær leyfið framselt fullnægi þeim skilyrðum sem sett eru að öðru leyti fyrir veitingu leyfis í frv. Síðan kemur: ,,Þetta ákvæði tekur ekki einungis til beins framsals á leyfi heldur einnig til framsals með óbeinum hætti, t.d. breytinga á eignarhaldi fyrirtækis sem fengið hefur leyfi til leitar, rannsókna eða vinnslu kolvetnis.`` Ég skil vel fyrri hluta þessarar greinar en alls ekki þann seinni. Við getum auðvitað staðið frammi fyrir því að skipt sé um eigendur í olíufyrirtæki þó að það standi þannig að vel hafi vegnað í leitinni og tilraunin að skila einhverjum árangri, að það geti orðið eignaskipti, þá hefur ráðherra heimild til að ráða því hver sé næsti eigandi þessa fyrirtækis.

Ég er helst að velta vöngum yfir þessum ákvæðum en það var eitthvað fleira sem ég mun þá væntanlega koma að síðar í umræðunni.