Leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 12:34:11 (1339)

2000-11-03 12:34:11# 126. lþ. 20.12 fundur 175. mál: #A leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[12:34]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég átti við þegar ég nefndi ákvæðið um mat á umhverfisáhrifum var fyrst og fremst að það er dálítið óskýrt í frv. hvernig menn ætla að viðhafa þá hluti. Hins vegar er það kjarni málsins í mati á umhverfisáhrifum að þau lög byggja á þeirri grundvallarhugsun að náttúran njóti vafans. Það er sú grundvallarhugsun sem býr að baki þeim lögum og sú hugsun á ekkert endilega frekar við á landi en á sjó. Það er bara þessi grundvallarhugsun sem þarna er á ferðinni. Mér fannst svona í niðurlagi ræðu hv. þm. hann ýja að því að hugsanlegt væri að fáir mundu vilja leita að, rannsaka og vinna olíu við Íslands ef við gerðum skýra körfu til umhverfismála, þá mundu menn jafnvel falla frá því að fara út í slíka vinnslu eða leit eða rannsóknir. Um leið finnst mér eins og hv. þm. sé að segja að náttúran eigi ekki að njóta vafans heldur að í tilvikum sem þessum eigi áhugi manna á fjárfestingum og þess háttar að ganga framar.

Ég veit ekki hvort ég skildi hv. þm. rétt en mér fannst koma fram í orðum hans að ef við gerðum ríkar kröfur til umhverfismála þá væri hættan sú að menn mundu ekki vilja leggja fjármagn í rannsókn, leit og vinnslu. Vel má vera að ég hafi misskilið þetta en þetta fannst mér koma fram í niðurlagsorðum hv. þm. Hafi ég misskilið hann þá vænti ég þess að hann skýri það betur í sínu síðara andsvari.