Leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 12:37:19 (1341)

2000-11-03 12:37:19# 126. lþ. 20.12 fundur 175. mál: #A leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[12:37]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að fara sömu leið og Norðmenn hafa farið, þ.e. að kveða skýrt á um að þetta skuli vera háð umhverfismati. Hins vegar finnst mér, a.m.k. að því er varðar þá ríkisstjórn sem nú situr, að það sé mjög algengt að í þeim tilvikum þar sem spurningin lýtur að því hvort náttúran eigi að njóta vafans eða ekki, séu peningasjónarmið jafnan sett skör hærra.

Við vorum í gær m.a. að ræða hugsanlegt laxeldi, kvíaeldi í Mjóafirði. Þar einmitt kom fram að hæstv. umhvrh. fann sér einhverja útgönguleið frá því að láta það fara í mat á umhverfisáhrifum þrátt fyrir að hér væri jafnvel vísir að stóriðju. Það má nefna fleiri og fleiri dæmi. Mér finnst, virðulegi forseti, að það sé jafnan þannig ef það kemur til umræðna um umhverfið eða umhverfismat að þá sé svona einhver tónn í ríkisstjórninni --- kannski er hann meiri hjá sjálfstæðismönnum --- mér finnst alltaf vera þannig tónn að það sé dálítill óþarfi að láta náttúruna njóta vafans, heldur skuli fjármagnið njóta hans í vafatilvikum. Mér finnst þessi viðhorf og þessi stefna ekki eiga við á þeim tímum sem við nú lifum í ljósi þess hvað maðurinn getur í raun gert með aðgerðum sínum á kostnað náttúrunnar og þeir hlutir verða hugsanlega ekki endurbættir. Ég segi því fullum fetum að við eigum að gera ríkar kröfur til þess að gæta að umhverfinu við mál af þeim toga sem við ræðum hér.